Þetta er bara hundfúlt

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði mark Stjörnunnar og sækir hér að marki …
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði mark Stjörnunnar og sækir hér að marki Rossijanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er bara hundfúlt að missa þetta niður í jafntefli og vinna ekki sannfærandi sigur miðað við leikinn. Ég er mjög svekktur með það,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 1:1 jafntefli liðsins við rússneska meistaraliðið Rossijanka í fyrri viðureign liðanna í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu.

Stjarnan hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleik en náði aðeins að skora eitt mark. Rússarnir voru hins vegar sterkir eftir hlé, en hvernig skýrir Ólafur muninn á milli hálfleikja?

„Við fengum á okkur mark í byrjun seinni hálfleiks sem setti okkur aðeins út af laginu en svo náðum við ágætum tökum á þessu. Við fengum góð færi og hefðum átt að skora,“ sagði Ólafur og tók undir að sérstaklega er svekkjandi að mörkin hafi ekki verið fleiri fyrir hlé.

„Já auðvitað, og svo er markið fúlt sem við fengum á okkur en við hefðum bara átt að setja fleiri á svona lið og klára þetta sannfærandi miðað við hvernig þessi leikur var,“ sagði Ólafur. Það þarf því að sækja í Rússlandi, en er það kannski bara ágætt í stað þess að verja eitthvað forskot?

„Það er allaf hægt að fara út í þá sálma, en við viljum vinna alla leiki og ef við hefðum unnið þennan leik þá hefðum við samt farið út til að sækja mark. Og það er það sem við þurfum að gera núna, við þurfum að skora og þá vinnum við þetta einvígi og förum áfram,“ sagði Ólafur.

Það var kominn pirringur í Stjörnuliðið undir lokin þegar rússnesku leikmennirnir virtust fara heldur auðveldlega niður eftir návígi.

„Það sáu það allir, en menn nota það sem hægt er og það sem dómarinn leyfir. Þær nýttu sér það í dag og fengu frið til þess, en í svona keppni eru leikmenn mismunandi milli landa og mismunandi dómarar. Við megum ekki missa haus yfir því, við hefðum örugglega reynt að tefja tímann ef við hefðum verið í Rússlandi að ná í úrslit sem við viljum. Við hefðum samt ekki verið svona mikið í jörðinni,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson við mbl.is.

Ólafur Guðbjörnsson.
Ólafur Guðbjörnsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert