Bauð rasismanum birginn á Íslandi

Brentton Muhammad eftir sigur í 3. deildinni með Tindastóli í ...
Brentton Muhammad eftir sigur í 3. deildinni með Tindastóli í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef virkilega notið tímans á Íslandi og hér hef ég eignast vini fyrir lífstíð.“ Þetta segir Brentton Muhammad, landsliðsmarkvörður eyríkisins Antigua og Barbuda í Karabíahafi, í samtali við mbl.is en síðustu þrjú ár hefur Muhammad spilað hér á landi og líkað vel.

Brentton er 27 ára gamall, fæddur í London og hafði spilað með bandarískum skóla- og félagsliðum auk ensks utandeildaliðis áður en hann kom til Íslands. Hann er einn af mörgum fótboltamönnum ættuðum frá Antigua og Barbuda sem eru fæddir erlendis en hafa verið fengnir til þess að spila með landsliði þjóðarinnar.

Brentton hefur síðustu tvö sumur leikið með Tindastóli, en hann kom fyrst sumarið 2015 og lék þá með Ægi í Þorlákshöfn. Það sumar komst hann í fréttirnar eftir að leikmaður Hattar á Egilsstöðum, Georgi Stefanov, varð uppvís að kynþáttafordómum í hans garð í miðjum leik. Viðkomandi leikmaður var síðar rekinn frá Hetti eftir atvikið, en viðbrögð Brenttons vöktu mikla athygli.

„Það getur ýmislegt gerst í hita leiksins. Ég reyndi að einbeita mér að því að vinna leikinn þrátt fyrir allt sem var í gangi. Svo þegar flautað var til leiks vildi ég ekki að neitt myndi skyggja á frammistöðu liðsins og ég vildi alls ekki að hann fengi sviðsljósið,“ segir Brentton, en hann var fyrstur til þess að taka í hönd Stefanov eftir leik og vakti það furðu margra.

„Þegar ég hugsa til baka þá held ég að það hafi verið margfalt erfiðara fyrir hann að þurfa að horfa í augun á mér eftir þetta og taka í höndina á mér. Það hefur verið það síðasta sem hann vildi gera eftir þessa framkomu og að hafa tapað leiknum í þokkabót. Það var gott að félagið tók á þessu eins og ætti að taka á öllum fordómum í fótboltanum,“ segir Brentton og er ánægður með viðbrögð Hattar.

„Þau komu mér ekki á óvart af því að mér fannst ég aldrei hafa verið í minnihluta á Íslandi fram að þessu, jafnvel þó að það séu ekki margir hér svartir á hörund. Mér var alltaf tekið opnum örmum og félagið ýtti undir þau skilaboð að ég væri velkominn en hann ekki,“ segir Brentton.

Brentton Muhammad á góðri stundu með Tindastóli.
Brentton Muhammad á góðri stundu með Tindastóli. Ljósmynd/Aðsend

Sögulegt tímabil á Sauðárkróki

Eftir sumarið hjá Ægi fór Brentton norður á Sauðárkrók. Tindastóll var þá í 3. deildinni sumarið 2016 en átti magnað tímabil og vann 17 af 18 leikjum sínum þetta sumarið og vann deildina með yfirburðum.

„Ég var nálægt því að semja við félag í Mexíkó árið 2016, en þá kom Tindastóll inn í myndina og við áttum þetta sögulega tímabil. Eftir það sýndi félagið mikinn metnað að byggja á árangrinum og fékk til sín tvo unga og spennandi þjálfara, Christopher Harrington og Stephen Walmsley. Í hreinskilni sagt þá hefði ég ekki komið aftur til Tindastóls ef ekki hefði verið fyrir þá tvo. Þeir samræmast minni hugmynd um fótboltann fullkomlega,“ segir Brentton.

Þjálfararnir tveir voru hins vegar reknir á miðju sumri eftir að gengi Tindastóls hafði verið undir væntingum. Að lokum hafnaði liðið í sjötta sæti 2. deildar en Brentton á ekki von á því að snúa þangað aftur næsta sumar.

„Ég er að kanna mína möguleika og er opinn fyrir tækifærum bæði á Íslandi og erlendis. Ég hef verið í viðræðum við nokkur lið en ekkert er frágengið enn þá. Eftir að hafa aðeins fengið á mig 9 mörk allt tímabilið 2016 með eina bestu tölfræði leikmanna á landinu þá finnst mér ég enn þá eiga mikið inni, ég þarf bara tækifæri til að sanna mig. Það að vinna 17 leiki í röð er magnað afrek en ég vona að ég eigi eftir að gera mikið í framtíðinni og að það muni standa í skugganum af einhverju enn stærra í framtíðinni,“ segir Brentton.

Brentton Muhammad fyrir landsleik með Antigua og Barbuda.
Brentton Muhammad fyrir landsleik með Antigua og Barbuda. Ljósmynd/Aðsend

Algjör eyðilegging á heimaslóðum

Hann á að baki 15 A-landsleiki fyrir eyríkið Antigua og Barbuda, en landsliðið er í 117. sæti á FIFA-listanum eftir að hafa hæst náð í 82. sæti fyrir tveimur árum. En hvernig er fótboltinn á þessum slóðum?

„Það eru nokkuð margir leikmenn sem spila á Englandi. Við erum með ungt lið en getum verið verðugur mótherji fyrir öll lið í Karabíahafinu, það er engin spurning,“ sagði Brentton, en heimaland hans var mikið í fréttunum fyrir skemmstu eftir að fellibylurinn Irma reið yfir í síðasta mánuði og Brentton segir áfallið mikið á þjóðinni.

„Jafnvel þótt eyjarnar tvær séu mjög nálægt hvor annarri vildi svo furðulega til að Antigua slapp nánast alveg en því er þveröfugt farið á Barbuda. Þar er eyðileggingin nánast algjör. Ég á ekki fjölskyldu á Barbuda heldur aðeins í Antigua, en þetta er engu að síður ömurlegt fyrir alla mína þjóð,“ sagði Brentton Muhammad við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina