„Hverjum er ekki andskotans sama?“

„Þetta er hægt og bítandi að detta inn í hausinn á manni að við erum komnir á HM,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson við mbl.is eftir sigurinn gegn Kosóvó í undankeppni HM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld. Með sigrinum tryggðu Íslendingar sér sigur í riðlinum og farseðilinn á HM.

„Það er í raun mjög erfitt að lýsa því hvernig manni líður. Þetta er stærsta afrek okkar allra og við getum við gífurlega stoltir af þessu afreki liðsins. Þetta er ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi,“ sagði fyrirliðinn með bros á vör.

„Þetta var ekkert frábær leikur af okkar hálfu en hverjum er ekki andskotans sama? Við erum komnir á HM og um það snýst málið. Það er enginn tímapunktur í undankeppninni sem við áttuðum okkur á því að við gætum gert þetta.

Við héldum okkar striki og gerðum allt sem við gátum til að ná í úrslit. Ég verð að hrósa öllu starfsliðinu í kringum landsliðið, öllum þeim sem koma að KSÍ, ykkur fjölmiðlum og auðvitað stuðningsmönnum liðsins. Það er magnað að fá tækifæri til að taka þátt í þessu og ég mun aldrei gleyma þessum degi. Ég get ekki beðið eftir drættinum og það verður gaman að sá hverja við fáum. Ég veit ekki einu sinni hverjir eru komnir á HM svo ég á mér enga óskamótherja eins og er,“ sagði Aron Einar.

mbl.is