HM ekki lengur bara draumur

Íslenska liðið fagnar í leikslok í gær.
Íslenska liðið fagnar í leikslok í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland á HM. Það var nánast súrrealískt að standa í stúkunni á þjóðarleikvanginum í gærkvöld og klappa fyrir íslenska karlalandsliðinu eftir að það hafði náð sínum stærsta áfanga í sögunni, og hlusta um leið á þessi töfraorð óma um Laugardalinn.

Þýskaland, Spánn, England, Belgía, Pólland, Serbía og Ísland. Já, þetta eru Evrópuþjóðirnar sjö sem hafa unnið sína riðla í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fer fram í Rússlandi sumarið 2018. Í kvöld gætu Frakkland og Portúgal bæst í hópinn, kannski.

Einhvern tíma hefði það þótt óhófleg bjartsýni, viðkomandi hefði sennilega ekki verið talinn með réttu ráði ef hann hefði talið upp þessar sjö þjóðir í sömu andrá sem þær fremstu í Evrópu. Nefnt Ísland til sögunnar í þessum hópi.

En eftir sigurinn á Kósóvó í gærkvöld er hinn stóri og einu sinni afar fjarlægi draumur íslenskra knattspyrnuáhugamanna um að Ísland eigi lið í lokakeppni heimsmeistaramóts orðinn að veruleika. Sjö sigurleikir og efsta sætið í þessum I-riðli sem af mörgum er talinn sá sterkasti í allri undankeppninni í Evrópu er niðurstaðan. Heil 22 stig í 10 leikjum gegn Króatíu, Úkraínu, Tyrklandi, Finnlandi og Kósóvó.

Tólf stig af fimmtán mögulegum í ótrúlegri seinni umferð keppninnar þar sem eina markið sem skorað var hjá íslenska liðinu í fimm leikjum var aukaspyrnumarkið glæsilega hjá Finnum sem færði þeim sigurinn í Tampere. Það var tapið sem flestir héldu að hefði gert út um vonir Íslands. En annað kom á daginn.

Þú getur lesið greinina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem leiknum gegn Kósóvó er gerð ítarleg skil. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »