Ásgeir Börkur áfram í Árbænum

Ásgeir Börkur handsalar samninginn við Fylkismenn.
Ásgeir Börkur handsalar samninginn við Fylkismenn. Ljósmynd/facbook-síða Fylkis

Ásgeir Börkur Ásgeirsson, fyrirliði Fylkismanna, skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við Árbæjarliðið.

Ásgeir Börkur leiddi Fylkismenn til sigurs í Inkasso-deildinni í sumar en miðjumaðurinn eitilharði var valinn besti leikmaðurinn í deildinni af fyrirliðum deildarinnar á nýafstöðnu tímabili. Hann kom við sögu í 20 af 22 leikjum liðsins.

Ásgeir Börkur sem er 30 ára gamall og er uppalinn í Árbænum hefur spilað að mestu með Fylki fyrir utan að spila sem atvinnumaður í Svíþjóð.

„Það er ánægjuefni að hafa klárað samning við fyrirliða Fylkis. Hann átti frábært tímabil og leiddi liðið áfram til sigurs í Inkasso. Ásgeir er mikil fyrirmynd yngri leikmanna og iðkanda í Fylki," segir Þorvaldur Árnason formaður meistaraflokks ráðs karla hjá Fylki á facebook síðu Fylkis.

mbl.is