Góður í fótbolta og snarklikkaður í skapinu

Ólafur Karl Finsen í Valsbúningnum í dag.
Ólafur Karl Finsen í Valsbúningnum í dag. mbl.is/Jóhann Ingi

„Óli Jó vakti mig kl. 11 í morgun og seldi mér þetta. Hann sagði mér að honum finnist ég góður í fótbolta og ég væri snarklikkaður í skapinu og fannst það góð blanda," sagði Ólafur Karl Finsen í samtali við mbl.is í dag. Ólafur var tilkynntur sem leikmaður Vals á fréttamannafundi á Hlíðarenda í dag. 

„Ég hef aldrei unnið með honum en ég hef unnið með Bjössa Hreiðars, hann fóstraði mig í Ísaksskóla. Það hafa margir sagt mér að Óli Jó gæti orðið flottur fyrir mig, ég hef heyrt það lengi frá mörgum."

Ólafur segir það hafa verið ljóst lengi að hann myndi yfirgefa Stjörnuna eftir sumarið. 

„Það var enginn aðdragandi. Það fara aldrei neinar samningaviðræður í gang, hvorugur aðilinn hafði áhuga. Við vissum að þetta samband væri búið, þetta var orðið súrt. Ég ætlaði að leita annað og þeir vissu af því svo þetta gekk hratt í dag. Þetta er búið að vera upp og niður og þannig er fótboltinn og lífið. Þetta er allt reynsla sem mér þykir mjög vænt um."

Ólafur er búinn að jafna sig á krossbandsslitum sem hann varð fyrir í byrjun síðasta sumars. 

„Það er alltaf eitthvað og ef það væri ekkert væri eitthvað meira að. Það er langt síðan ég spilaði fótboltaleik. Ég hef ekki spilað 90 mínútur í tvö ár og leikformið vantar. Annað er í lagi."

Hann segir markmiðin hjá Val henta sér, vinna allt sem í boði er hér heima. 

„Ég er þannig að ég stefni alltaf á allt sem er í boði. Annars hef ég ekki fengið neinn tíma til að hugsa mikið um það. Ég hef varla lesið yfir samninginn. Ég held hann sé þrjú ár eða tvö ár með uppsagnarákvæði," sagði Ólafur. 

mbl.is