Stofna starfshóp um nýjan Laugardalsvöll

Bjarni Benediktsson, Guðrún Inga Sívertsen, Guðni Bergsson og Dagur B. ...
Bjarni Benediktsson, Guðrún Inga Sívertsen, Guðni Bergsson og Dagur B. Eggertsson á fundinum í dag. mbl.is/Andri Yrkill

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lýsti yfir vilja sínum til að stofna starfshóp um næstu skref í uppbyggingu Laugardalsvallar. Þetta kom fram á fréttamannafundi um málefni vallarins í Laugardalnum í dag.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, kynnti þá þær hugmyndir sem unnið hefur verið í um framtíð vallarins. Félagið Borgarbragur hefur verið í forsvari fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið í tengslum við uppbyggingu í Laugardalnum og voru þrjár tillögur kynntar á fundinum.

Fyrsta tillagan gerir ráð fyrir upplyftingu á núverandi leikvangi fyrir um 500 milljónir. Ekki er það hins vegar talið vænlegt til framtíðar.

Önur tillagan gerir ráð fyrir nýjum knattspyrnuleikvangi, sem yrði opinn en ekki með þaki sem hægt væri að loka. Myndi hann vera mun nútímalegri en núverandi Laugardalsvöllur, en væri ekki öruggur fyrir veðri allt árið um kring. Kostnaður hljóðar upp á rúma 5 milljarða.

Síðasta tillagan, sem ítarlegast var fjallað um, gerir ráð fyrir fjölnota leikvangi með lokanlegu þaki og því hægt að nota árið um kring. Ekki væri hann einungis bundinn við knattspyrnu heldur mögulegur tónleikastaður og ráðstefnusalur svo eitthvað sé nefnt, og myndi hagur samfélagsins af slíkum leikvangi vera mun meiri. Áætlaður kostnaður er í kringum 8,3 milljarða króna.

Ekki hægt án aðkomu ríkisins

Guðni sagði að fram undan væri breytt landslag í knattspyrnuheiminum þar sem Ísland mun þurfa að spila landsleiki hér á landi bæði í nóvember og í mars. Laugardalsvöllur í dag sé á undanþágu og næstu skref eru að taka ákvörðun um hvort ráðist yrði í framkvæmdir og þá hvaða hugmynd yrði ofan á. Þar þyrftu ríkið, Reykjavíkurborg og KSÍ að vinna saman, en sem stendur er Laugardalsvöllur í eigu Reykjavíkurborgar og stendur ekki undir árlegum kostnaði.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók til máls á fundinum og sagði að þverpólitísk samstaða væri um að klára þá vinnu sem farin sé í gang. Hins vegar eigi eftir að velja hvaða leið yrði farin og hvernig hún yrði fjármögnuð. Borgin sæi hins vegar sóknarfæri fyrir Laugardalinn í heild, en einnig atriði sem þyrfti að hafa í huga eins og áhrif leikvangsins á hverfið og áhyggjum af aukinni umferð.

Lykilatriði væri hins vegar að ríkið myndi koma að borðinu, því borgin og KSÍ gætu ekki ráðist í þetta verkefni ein.

Laugardalsvöllur og nágrenni.
Laugardalsvöllur og nágrenni. mbl.is/Árni Sæberg

Styrkir Ísland á milli heimsálfa

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók undir með Degi um þá samstöðu sem ríkti um verkefnið. Íslendingar væru sammála því að kominn sé tími á slíka framkvæmd auk þess sem íþróttafólk hér á landi væri komið fram úr sinni aðstöðu eins og hún er í dag.

„Ég fagna því að menn hafa fundið leið til þess að leysa í einu verkefni bæði aðstöðumál íþróttahreyfingarinnar og eignast mannvirki sem getur haft líf árið um kring. Dregið til landsins ferðamenn, aukið fjölbreyti í menningu og styrkt Ísland sem ráðstefnuland mitt á milli heimsálfa í miðju Atlantshafi. Það eru mörg ljós sem kvikna þegar maður sér hvert þetta verkefni er komið,“ sagði Bjarni.

Næstu skref væru að setja þetta í formlegt ferli, stofna starfshóp í kringum verkefnið og taka ákvörðun um það hvaða lendingu menn vilji ná í málinu.

mbl.is