Eitt ljúfasta augnablik ferilsins

Elín Metta Jensen, Rakel Hönnudóttir og Fanndís Friðriksdóttir.
Elín Metta Jensen, Rakel Hönnudóttir og Fanndís Friðriksdóttir. Ljósmynd/Reimund Sand

„Að sjá boltann í netinu var eitt ljúfasta augnablik á fótboltaferlinum mínum. Geggjað,“ sagði landsliðsframherjinn Elín Metta Jensen við mbl.is um markið sem hún skoraði í 3:2 sigrinum á Þýskalandi í undankeppni HM í Wiesbaden.

Elín hafði brennt af fyrir opnu marki í fyrri hálfleik en bætti heldur betur fyrir það. „Ég var nú fljót að gleyma því en svo náði ég að skora úr færi sem var erfiðara en það sem ég nýtti ekki. Það er bara ágætt,“ sagði Elín og hló en hún hefur nú skorað í báðum leikjum Íslands í keppninni til þessa. 

Elín lagði upp þriðja markið fyrir Dagnýju Brynjarsdóttur. Í fyrsta marki Íslands sem Dagný skoraði einnig lenti Elín í baráttu við þýska markvörðinn um boltann eftir fyrirgjöf frá Rakel Hönnudóttur. Svo virðist sem markvörðurinn hafi slegið boltann í höfuð Elínar og þaðan fór hann fyrir Dagnýju. „Ég vil fá þessa stoðsendingu á mig. Ég truflaði markvörðinn en ég veit hreinlega ekki hvort ég snerti boltann eða ekki.“

Elín Metta var frammi með Fanndísi Friðriksdóttur í leikkerfinu 5-3-2 og þær þurftu að hlaupa mikið í leiknum en á köflum gekk íslenska liðinu vel að pressa þýska liðið þegar það var reynt. „Maður þurfti svolítið að velja réttu augnablikin til þess að orkan nýttist sem best í mikilvægustu hlutina. Um það var rætt fyrir leikinn og mér fannst það ganga vel. Pressan hjá okkur gekk vel upp í þessum leik. Þær þýsku virtust hafa fá svör við því þegar við reyndum að pressa þær framarlega. Oft eru það skemmtilegustu leikirnir þegar tekst að pressa andstæðingana í tætlur,“ sagði Elín Metta Jensen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert