Bild „faldi“ tapið gegn Íslandi

Íslenski fáninn á áhorfendapöllunum í Wiesbaden í gær.
Íslenski fáninn á áhorfendapöllunum í Wiesbaden í gær. Ljósmynd/Reimund Sand

Þýskir fjölmiðlar virðast ekki hafa sama áhuga og þeir íslensku á úrslitunum sögulegu hjá Þýskalandi og Íslandi í undankeppni HM kvenna í knattspyrnu í Þýskalandi í gær. 

Þýska blaðið Bild, sem mun vera mest selda dagblað í Evrópu og dreift í nokkrum löndum, er með veglegt sérblað um fótbolta í dag. Þar þarf að leita vandlega að tapi Þýskalands gegn Íslandi kvöldið áður.

Bild eyðir tíu línum í leikinn undir dagskrárliðnum: Fréttir en þar er að finna nokkrar stuttfréttir. Er blaðið þó 32 blaðsíður og að langmestu leyti um fótbolta í Þýskalandi. 

Á bls 27 er greint frá úrslitum leiksins og kemur þar fram að um sé að ræða fyrsta sigur Íslands gegn Þýskalandi í fimmtán viðureignum. Ein setning er höfð eftir þýska þjálfaranum Steffi Jones og tekið fram hverjar skoruðu fyrir Þýskaland. 

Hvort umfjöllunin hefði orðið önnur og meiri ef Þýskaland hefði unnið skal ósagt látið en í það minnsta var talsverður fjöldi fjölmiðlafólks viðstaddur leikinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert