Skýrist í næstu viku hvort Orri fari til Horsens

Orri Sigurður Ómarsson í baráttu við FH-inginn Atla Guðnason í ...
Orri Sigurður Ómarsson í baráttu við FH-inginn Atla Guðnason í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bo Henriksen, þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Horsens, segir að það komi í ljós í næstu viku hvort Orri Sigurður Ómarsson gangi til liðs við félagið.

Orri Sigurður lék allan tímann með Horsens í gær þegar það gerði 1:1 jafntefli við þýska B-deildarliðið Union Berlin í Þýskalandi en fregnir bárust af því fyrr í vikunni að Horsens hafi náð samkomulagi við Val um kaupverðið á miðverðinum.

„Hann var svolítið óöruggur í fyrri hálfleik en það var mánuður liðinn frá því hann spilaði síðast svo það var alveg eðlilegt. Hann fékk sanngjart tækifæri og nú metum við stöðuna og tökum ákvörðun í næstu viku,“ segir Bo Henriksen í viðtali við danska blaðið Horsens Folkeblad en með liði Horsens leikur Kjartan Henry Finnbogason sem er með íslenska landsliðinu í Katar og skoraði mark Íslands í 2:1 tapi þess gegn Tékkum í fyrradag.

Orri hef­ur verið í stóru hlut­verki hjá Vals­mönn­um síðan hann kom til þeirra frá AGF í Dan­mörku í árs­byrj­un 2015. Hann er upp­al­inn í HK og lék 16 ára gam­all með meist­ara­flokki fé­lags­ins eitt tíma­bil áður en hann fór til Dan­merk­ur. Hann hef­ur leikið 65 af 66 leikj­um Vals í deild­inni frá þeim tíma, alla í byrj­un­arliðinu.

Orri lék tvo fyrstu A-lands­leiki sína snemma á þessu ári en hann á að baki 67 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is