Stoltasta augnablikið að skora á EM

Pepe er sá besti sem Jón Daði Böðvarsson hefur mætt.
Pepe er sá besti sem Jón Daði Böðvarsson hefur mætt. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í skemmtilegu viðtali um lífið utan vallar hjá félagi sínu Reading á Englandi.

Jón Daði fær nokkrar spurningar og svarar þeim eftir bestu getu. Þar kemur meðal annars í ljós að hann horfði mest upp til hins brasilíska Ronaldos í æsku og Gylfi Þór Sigurðsson er besti leikmaðurinn sem hann hefur spilað með.

Hluta af spurningunum og svörum Jóns Daða má sjá hér að neðan og myndskeið af viðtalinu má sjá neðst í fréttinni.

Stoltasta augnablik ferilsins:

Að skora fyrir Ísland gegn Austurríki á EM í fyrra. Þetta var stórt augnablik fyrir mig persónulega en fyrir þjóðina líka, svo ég verð að velja það.

Besti leikmaður sem þú hefur spilað með?

Sennilega Gylfi Þór Sigurðsson. Hann hefur verið besti leikmaður landsliðsins síðustu ár. Hann er ótrúlegur íþróttamaður, æfir alltaf aukalega og vill bæta sig. Hann getur breytt leikjum upp á sitt eindæmi.

Besti leikmaður sem þú hefur mætt?

Sennilega Pepe með Portúgal á EM. Hann er erfiður og vill sparka aðeins í þig líka.

Vissirðu alltaf að þú ættir eftir að verða fótboltamaður?

Já, algjörlega. Ég kom ekki úr fótboltafjölskyldu og þurfti því mikið að treysta á sjálfan mig. Þegar ég var 16-17 ára hugsaði ég að ég gæti farið langt og það hefur gengð vel hingað til.

Besti leikur sem þú hefur séð?

AC Milan – Liverpool í Meistaradeildinni 2005.

Besti leikvangur sem þú hefur spilað á?

Anfield.

Uppáhaldsleikmaður þinn í æsku?

Hinn brasilíski Ronaldo. Þegar maður var lítill vildi maður gera eins og hann.

Hver hafði mest áhrif á feril þinn þegar þú varst að vaxa úr grasi?

Mamma mín og pabbi. Fjölskyldan hefur gefið mér mest og ég horfi alltaf upp til þeirra.

Hver hefur gengið fram af þér með tónlistinni sem spiluð er í klefanum?

Sennilega öll tónlistin sem er spiluð í dag, það er ekki minn smekkur.

mbl.is