Þetta er draumastarf - Sigurður ráðinn til þriggja ára

Sigurður Ragnar Eyjólfsson ásamt Ma Jun, fyrirliða Jiangsu Suning og ...
Sigurður Ragnar Eyjólfsson ásamt Ma Jun, fyrirliða Jiangsu Suning og leikmanni kínverska kvennalandsliðsins, eftir bikarsigur Jiangsu í sumar.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson mun stýra kínverska landsliðinu í knattspyrnu næstu þrjú árin. Þetta staðfesti hann við mbl.is rétt í þessu en í morgun var skýrt frá því að Sigurður myndi sjá um liðið í tveimur vináttulandsleikjum gegn Ástralíu síðar í þessum mánuði.

Sigurður tók við kvennaliði Jiangsu Suning í Kína fyrr á þessu ári en liðið endaði í þriðja sæti kínversku úrvalsdeildarinnar í ár og varð bikarmeistari. Hann hættir störfum þar í kjölfar þessarar ráðningar.

Sigurður tekur við landsliði Kína af Bruno Bini, fyrrverandi landsliðsþjálfara Frakka, sem hefur stýrt því undanfarin tvö ár.

„Þetta er geysilega viðamikið verkefni því kínverska landsliðið er saman í 160-200 daga á ári. Ég er nú þegar kominn til Shanghai þar sem liðið verður í æfingabúðum, sem hefjast á morgun. Eftir þessa leiki við Ástralíu tekur liðið þátt í Austur-Asíubikarnum í Tókýó í desember þar sem við mætum Japan, Norður-Kóreu og Suður-Kóreu. Fyrsta æfingaferðin af þremur til Bandaríkjanna á árinu 2018 verður í janúar, svo komum við í Algarve-bikarinn í Portúgal í febrúar, spilum á móti í Kína í mars og í apríl hefst Asíubikarinn þar sem við reynum að vinna okkur sæti á HM 2019,“ sagði Sigurður við mbl.is.

Hann mun hafa aðsetur í Beijing en þar eru höfuðstöðvar liðsins og kínverska knattspyrnusambandsins. 

Þetta er algjört draumastarf. Kína er fjölmennasta þjóð í heimi og Kínverjarnir hafa auðveldlega bolmagn til að ráða hvern sem þeir vilja í þetta starf. Þeir auglýstu það ekki, heldur leituðu til mín og báðu mig um að taka við liðinu, og ég er ofboðslega stoltur af því og ætla að gera allt sem ég get til að hjálpa liðinu,“ sagði Sigurður ennfremur.

Sigurður Ragnar er 44 ára gamall og þjálfaði kvennalandslið Íslands frá 2007 til 2013 og stýrði því í lokakeppni Evrópumótsins árin 2009 og 2013. Hann þjálfaði karlalið ÍBV 2014, var síðan aðstoðarþjálfari karlaliðs Lilleström í Noregi en tók við Jiangsu síðasta vetur.

mbl.is