Kristinn hættur hjá Sundsvall

Kristinn Steindórsson.
Kristinn Steindórsson.

Kristinn Steindórsson er hættur hjá sænska knattspyrnufélaginu Sundsvall eftir að hafa leikið með því í tvö ár. Þetta kemur fram í Sundsvalls Tidning og þar staðfestir Urban Hagblom, íþróttastjóri félagsins, þetta.

„Það hefur verið gert samkomulag við Kristin sem leitar á nýjar slóðir á sínum ferli. Hann er mjög öflugur knattspyrnumaður og við erum ánægðir með að hann hefur verið okkar liðsmaður en eftir viðræður við hann hefur komið á daginn að þetta væri besta lausnin fyrir báða aðila,“ sagði Hagblom en Kristinn átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið sem forðaði sér frá falli úr sænsku úrvalsdeildinni með góðum útisigri í lokaumferðinni á dögunum.

Kristinn hefur m.a. verið orðaður við FH.

Kristinn var fastamaður í liði Sundsvall og spilaði 25 af 30 leikjum liðsins í sænsku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili, alla nema einn í byrjunarliðinu. Hann kom til félagsins í ársbyrjun 2016 eftir að hafa leikið eitt ár með Columbus Crew í bandarísku MLS-deildinni, áður var hann þrjú ár í röðum Halmstad en lék til þess tíma með Breiðabliki þar sem hann varð bikarmeistari árið 2009 og Íslandsmeistari árið 2010. Þar lék hann allan tímann undir stjórn Ólafs H. Kristjánssonar, núverandi þjálfara FH.

Kristinn hefur leikið 3 A-landsleiki og skorað í þeim 2 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert