Kristinn vill ekki fallbaráttu – FH einn möguleiki

Kristinn Steindórsson.
Kristinn Steindórsson. Ljósmynd/thecrew.com

„Það eru engar viðræður í gangi eða neitt þannig, heldur er ég bara að skoða málin,“ sagði knattspyrnumaðurinn Kristinn Steindórsson við mbl.is í dag, en hann hefur yfirgefið herbúðir sænska liðsins Sundsvall eftir tveggja ára veru hjá félaginu.

„Við settumst niður eftir tímabilið og komumst að þessari niðurstöðu sem við töldum bestu niðurstöðuna fyrir báða aðila. Ég átti eitt ár eftir af samningnum en það var ákvæði í honum sem gerði þetta mögulegt. Þetta var allt gert í góðu, en það er gott að fá að fara og skoða eitthvað annað. Ég er búinn að vera þarna í tvö ár og það hefur ekki gengið vel hjá liðinu, auk þess sem það var meiðslavesen hjá mér í fyrra. Það var því kominn smá hugur í mann að prófa eitthvað annað,“ sagði Kristinn.

Hann spilaði hér á landi með Breiðabliki þar sem hann varð Íslands- og bikarmeistari áður en hann hélt í atvinnumennsku árið 2011. Hjá Blikum spilaði hann undir stjórn Ólafs Kristjánssonar sem er nú þjálfari FH, en Kristinn hefur einmitt verið sterklega orðaður við heimkomu og þá til FH-inga.

„Það er einn möguleiki, en það er ekkert klárt eins og orðrómarnir segja. Ég er bara að skoða hvað er í boði og hvað væri gott næsta skref. Svo tek ég ákvörðun út frá því sem kemur upp,“ sagði Kristinn, sem hefur heldur ekki heyrt í Blikum.

„Ég hef ekkert heyrt, en maður býst alveg við því að það sé áhugi þar og örugglega hjá fleiri liðum hérna heima. Ég er ekki kominn í neinar viðræður við neina. Einu viðræðurnar sem ég stend í eru við blaðamenn,“ sagði Kristinn.

Kristinn Steindórsson í leik með Sundsvall.
Kristinn Steindórsson í leik með Sundsvall. AFP

Vill ekki vera lengi í lausu lofti

Kristinn kom til Sundsvall í ársbyrjun 2016 eftir að hafa leikið eitt ár með Columbus Crew í bandarísku MLS-deildinni, en áður var hann þrjú ár hjá Halmstad í Svíþjóð. Hann segir að það væri gaman að vera áfram erlendis, en gefur í skyn að það þyrfti að vera á öðrum forsendum en áður.

„Það væri gaman að vera áfram úti, en það fer alveg eftir því hvað kemur upp og hvað er í boði. Ég hef verið í botnbaráttu núna með Sundsvall og það er erfitt og leiðinlegt að standa í slíku. Það væri gaman að fara eitthvert þar sem markmiðið er ekki bara að halda sér í deild. En þetta verður að koma í ljós og maður getur ekki bara bent þangað sem maður vill fara. Það þarf ýmislegt að ganga upp og nú þarf ég bara að leggjast yfir hlutina og sjá hvað gerist,“ sagði Kristinn.

„Það er ekki langt síðan deildin kláraðist úti. Nú er ég bara að hvíla mig aðeins á því að vera í fótbolta og er að æfa sjálfur, kíki með kærustunni í boot-camp og svona,“ sagði Kristinn, en hvenær býst hann við því að eitthvað fari að gerast í hans málum?

„Það er erfitt að ætla að setja einhvern tímaramma á það, það fer allt eftir því hvað kemur upp og hvað er þá hægt að vinna hlutina hratt þegar þar að kemur. Auðvitað væri þægilegt að klára eitthvað sem fyrst, enda vill maður ekki vera í lausu lofti lengi,“ sagði Kristinn Steindórsson við mbl.is.

mbl.is