„Það koma önnur tækifæri“

Það vilja margir sjá Aron Einar Gunnarsson glíma við Lionel …
Það vilja margir sjá Aron Einar Gunnarsson glíma við Lionel Messi í Moskvu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki verða margir miðar í boði fyrir Íslendinga í söluferli sem hefst á morgun vegna miða á HM í Rússlandi. 8% sölumiða verða í boði fyrir Íslendinga en talið er að mun fleiri Íslendingar stefni á að vera í stúkunni þegar strákarnir mæta Messi og félögum hans í argentínska landsliðinu 16. júní í Moskvu.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, bendir á að 8% af sölumiðum séu ekki 8% af þeim 45 þúsundum sem völlurinn í Moskvu tekur í sæti. Hún miðar við að FIFA taki um fimm þúsund miða til fjölmiðla og styrktaraðila og því séu 8% af 40 þúsund miðum í boði fyrir Íslendinga í þessu ferli, eða 3.200 miðar.

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Vinna í því að fá fleiri miða

Klara segir ljóst að KSÍ þurfi fleiri miða en eins og kom fram í gær verður þess krafist. „Við erum að vinna í því að fá þá,“ segir Klara en KSÍ sendir framkvæmdastjóra FIFA bréf í dag þar sem þess verður óskað að þátttökuþjóðir fái fleiri miða.

„Það er búið að selja talsvert af miðum. FIFA er ábyrgt fyrir miðasölunni en það sem við vitum er að í þessari lotu fara 8% miða í sölu til íslenskra stuðningsmanna og síðan ef það verða miðar eftir verða þeir seldir 15. febrúar til 12. mars og síðan er annað ferli 18. apríl til 15. júlí,“ segir Klara.

Hún vonast til þess að framkvæmdastjóri FIFA taki vel í ósk KSÍ um fleiri miða, sem er samhljóða ósk ýmissa annarra Evrópuþjóða. „Það eru flestar Evrópuþjóðir að gera þetta,“ segir Klara en hún sagði í gær að Svíar hefðu haft frumkvæði að því að krefjast fleiri miða.

Otkrytiye-leikvangurinn þar sem Ísland og Argentína etja kappi.
Otkrytiye-leikvangurinn þar sem Ísland og Argentína etja kappi. Ljósmynd/Wikipedia

Brýnir fyrir fólki að flýta sér hægt

„Við reynum að leggja okkar af mörkum í þessari pressu á FIFA að reyna að fjölga miðum til þátttökuþjóðanna og gera þeim hærra undir höfði.

Klara bendir á að einhver hluti miða á alla leiki fari eingöngu í sölu til Rússa. Hún segir að það megi gera ráð fyrir því að fjölmargir rússneskir knattspyrnuáhugamenn vilji berja Messi augum.

Annar hluti miðasölunnar hefst á morgun en Klara brýnir fyrir fólki að flýta sér hægt og vanda miðaumsóknir. Engu máli skiptir hvort sótt er um miða á morgun eða 31. janúar; allir fara í happdrætti þar sem dregið verður úr hverjir fá miða á þá leiki sem þeir sækja um ef ekki reynist nægt framboð af miðum.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það koma önnur tækifæri

Flugfélög og ferðaskrifstofur hafa hafið sölu á ferðum á leiki Íslands næsta sumar. Klara kveðst ekki getað svarað því hvort hún hafi áhyggjur af því að einhverjir Íslendingar verði miðalausir í Moskvu. 

Þetta er ekki eina miðasöluferlið og það koma önnur tækifæri. Við bendum fólki á að halda ró sinni og vera ekki að gera mistök núna, heldur vanda sig. Það munu vonandi koma fleiri miðar á markaðinn hjá FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert