Gylfi og Sara knattspyrnufólk ársins

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Pavel Jirik

Leikmannaval KSÍ hefur valið Gylfa Þór Sigurðsson og Söru Björk Gunnarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2017.

Þetta er í sjöunda sinn á síðustu átta árum sem Gylfi Þór er valinn knattspyrnumaður ársins og fjórða sinn á síðustu fimm árum sem Sara Björk er valin.

Aron Einar Gunnarsson varð í öðru sæti og Jóhann Berg Guðmundsson í því þriðja. Hjá konunum varð Sif Atladóttir í öðru sæti og Dagný Brynjarsdóttir í því þriðja.

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Golli

Í umsögn um Gylfa segir;

Gylfi Þór Sigurðsson var frábær á síðasta keppnistímabili hjá Swansea City, líkt og venjulega, og skoraði níu mörk og átti 13 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni. Hann var stór þáttur í því að halda liðinu í efstu deild, en það endaði í 15. sæti. Síðastliðið sumar var Gylfi seldur til Everton og varð með því langdýrasti knattspyrnumaður Íslands. Fyrir Everton hefur hann leikið 22 leiki á yfirstandandi leiktímabili, skorað fjögur mörk og átt fjórar stoðsendingar. Gylfi hefur verið lykilmaður í landsliði Íslands á árinu, sem fyrr, og skoraði hann fjögur mörk og átti þrjár stoðsendingar í sjö leikjum, og byrjaði í öllum leikjum liðsins í undankeppni HM 2018 í Rússlandi. 

Í umsögn um Söru segir;

Sara Björk Gunnarsdóttir er lykilmaður í þýska stórliðinu Wolfsburg og vann bæði deildina og bikarinn á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Á yfirstandandi tímabili hefur Sara leikið alla leiki liðsins og skorað þrjú mörk, en Wolfsburg situr á toppi deildarinnar. Sara lék 14 leiki með Íslandi árið 2017 og skoraði í þeim eitt mark. Hún var fyrirliði liðsins í úrslitakeppni EM 2017 í Hollandi og algjör lykilmaður á miðjunni. 

Þetta er í 14. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert