„Það komu engar milljónir frá Kína“

Birkir Már Sævarsson í treyju Vals í dag.
Birkir Már Sævarsson í treyju Vals í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það má segja að þetta hafi legið í loftinu í einhvern tíma,“ sagði Birkir Már Sævarsson í samtali við mbl.is eftir að hann skrifaði undir þriggja ára samning við Val í dag. Hann er nú kominn aftur heim eftir að hafa verið í atvinnumennsku síðastliðinn áratug.

Birkir Már yfirgaf Val árið 2008 og gekk í raðir Brann í Noregi, þaðan sem hann fór til Hammarby í Svíþjóð fyrir þremur árum. Hann náði ekki samkomulagi við sænska félagið um nýjan samning og fór þá að leita í kringum sig.

„Ég vildi mest halda áfram með Hammarby því við vildum ekki flytja með fjölskylduna á einn stað í viðbót. Ef ég hefði fengið eitthvað gott tilboð einhvers staðar frá sem ekki væri hægt að segja nei við þá hefði ég skoðað það og fjölskyldan farið heim. En það komu engar milljónir frá Kína, svo þá var stefnan sett heim,“ sagði Birkir Már léttur í bragði.

Á fréttamannafundi Vals kom fram að möguleiki sé á því að Birkir fari á lán fram á vor. Mun hann leggja allt kapp á það?

„Ég er með umboðsmann í því og ef það kemur eitthvað tilboð þá skoðum við það. Ég er ekkert að stressa mig á núna og ég mæti bara á æfingar með  Val eftir áramót,“ sagði Birkir.

Birkir Már Sævarsson kynntur til leiks hjá Val í dag.
Birkir Már Sævarsson kynntur til leiks hjá Val í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ræddi við Heimi áður en hann kom heim

Birkir hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu um árabil og framundan er heimsmeistaramótið í Rússlandi næsta sumar. Telur Birkir það koma niður á hans möguleikum að fara á HM að vera kominn aftur heim?

„Ég vona ekki og það er undir mér komið að standa mig vel í leikjunum framundan bæði með Val og landsliðinu. Mér finnst voðalega lítill munur á því að vera á undirbúningstímabili hérna eða í Noregi eða Svíþjóð. Ég hef verið tíu ár þar og alltaf samt í landsliðinu, svo ég held að þetta sé meira undir mér komið frekar en hvar ég er,“ sagði Birkir Már.

Ræddirðu málin við Heimi Hallgrímsson landsliðsþjálfara áður en þú ákvaðst endanlega að koma í Val?

„Já ég hef talað reglulega við Heimi síðustu mánuði svo hann veit hvar ég stend og ég veit hvar hann stendur. Hann sagði allavega ekki að ég væri búinn, en eins og ég segi þá verð ég bara að standa mig. Ég veit að ég labba ekki inn í landsliðið bara því ég hef spilað með landsliðinu áður. Ég lofa því að verða í standi í júní, alveg 100%“ sagði Birkir.

Valsliðið núna eitt það besta í sögunni

Birkir Már er sannur Valsmaður inn að beini en hann yfirgaf félagið árið 2008 þegar hann hélt út í atvinnumennsku. Það hefur ýmislegt gengið á síðan þá, hefur Birkir fylgst vel með?

„Já ég hef alltaf fylgst vel með og reynt að horfa á alla þá leiki sem ég möguleika get og les allar fréttir sem ég kemst í. Öll fjölskyldan er Valsfjölskylda svo ég veit alveg um hvað þetta snýst hérna. Liðið núna er sennilega eitt það besta sem spilað hefur í úrvalsdeildinni á Íslandi og ég er virkilega spenntur fyrir því að byrja,“ sagði Birkir Már Sævarsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert