„Rosalega stórt og spennandi“

Sandra María Jessen í leik með Þór/KA í sumar.
Sandra María Jessen í leik með Þór/KA í sumar. mbl.is/Golli

„Það var umboðsmaður úti sem sendi mér skilaboð og spurði hvort ég hefði áhuga á því að skoða þennan möguleika. Mér leist vel á þetta og ákvað að slá til,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði Íslandsmeistara Þórs/KA í knattspyrnu, við mbl.is en hún er á leið á láni til tékkneska meistaraliðsins Slavia Prag.

Sandra sagðist hafa þurft að halda þessu leyndu í um tvær vikur eftir að pappírsvinnan gengi í gegn, en þetta var svo opinberað í morgun. Slavia er í toppsæti tékknesku úrvalsdeildarinnar þegar aðeins fjórir leikir eru eftir fyrir úrslitakeppni og er komið áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

 „Það er aðalástæðan fyrir því að liðið vildi fá mig núna, enda lítið eftir í deildinni hjá þeim. Það er rosalega stórt og spennandi verkefni og eitthvað sem ég hlakka mjög mikið til að gera. Það er ekki á hverjum degi sem þú færð að spila í Meistaradeildinni,“ sagði Sandra.

Slavia Prag sló Stjörnuna út í 16-liða úrslitunum og mætir Söru Björk Gunnarsdóttur og þýska meistaraliðinu Wolfsburg í 8-liða úrslitunum sem fram fara seint í mars.

„Það verður ekki leiðinlegt að spila á móti henni og Wolfsburg, það verður sérstaklega gaman.“

Ætlar ekki að missa af titilvörn Þórs/KA

Sandra María verður lánuð til Slavia Prag fram í apríl og ætti því að vera komin aftur til Þórs/KA áður en keppni hefst í Pepsi-deildinni. Það er þó enn opið.

„Það er búið að gera samning milli liðanna um það hvenær ég kem til baka. Stefnan er að ég verði komin fyrir fyrsta leik í Pepsi-deildinni, en ef liðið kemst áfram í Meistaradeildinni og leikirnir verða eftir að Pepsi-deildin hefst þá kem ég bara seinna heim. Það er alveg skýrt á milli liðanna hvernig þau mál standa,“ sagði Sandra.

Hún heyrði af áhuga nokkurra liða eftir að tímabilinu hér á landi lauk í haust, en hún ætlar að leika hér á landi næsta sumar þar sem Þór/KA freistar þess að verja Íslandsmeistaratitilinn og tekur auk þess þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar.

„Það var áhugi frá liðum bæði frá Noregi og Svíþjóð, en einhvern veginn leist mér best á þetta. Bæði til að prófa nýtt umhverfi en á sama tíma að spila með Þór/KA í sumar og í Meistaradeildinni þar. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt svo þetta var millivegurinn,“ sagði Sandra.

Sandra María Jessen þrumar að marki með Þór/KA í sumar.
Sandra María Jessen þrumar að marki með Þór/KA í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stefnir á að fara alfarið út næsta haust

Það má segja að Íslandsmeistaratitillinn í sumar hafi breytt áætlunum Söndru, sem stefnir að lokum alfarið út í atvinnumennsku.

„Stefnan er að gera það. Fyrir síðasta sumar var markmiðið að fara alveg út núna, en mér finnst erfitt að yfirgefa Þór/KA nú þegar liðið er komið í Meistaradeildina svo ég ætla að seinka því um eitt ár. Ég stefni því að fara alveg út eftir næsta sumar,“ sagði Sandra María.

Hún er ekki ókunnug því að leika erlendis því hún var lánuð til Bayer Leverkusen í Þýskalandi á svipuðum tíma árs fyrir tveimur árum. Það má þó segja að þetta sé stærra skref.

„Þetta er bara öðruvísi verkefni, allt annar fótbolti sem er spilaður. Ég spilaði svo ekki í Meistaradeildinni með Leverkusen þó ég hafi fengið marga góða leiki þar í þýsku Bundesligunni. Þetta er bara eitthvað annað sem verður gaman að prófa, það hefur heldur engin íslensk stelpa spilað þarna áður svo þetta er bara mjög spennandi,“ sagði Sandra María Jessen við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert