Úr 0 í 300.000 á skömmum tíma

Íslenska kvennalandsliðið á góðri stundu.
Íslenska kvennalandsliðið á góðri stundu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að svokallaðar stigagreiðslur til leikmanna A-landsliðs kvenna yrðu hækkaðar. Verða greiðslurnar nú og til framtíðar jafnháar greiðslum til leikmanna A-landsliðs karla. Um umtalsverða búbót er að ræða fyrir íslenskar landsliðskonur en mjög stutt er síðan að þær fengu engar þess háttar bónusgreiðslur fyrir sigra og jafntefli.

Leikmenn landsliðanna hafa fengið jafnháar dagpeningagreiðslur frá KSÍ um árabil, óháð kyni, vegna þeirra daga sem þeir verja í landsliðsverkefni. Stigagreiðslurnar eru svo bónusgreiðslur sem leikmenn fá fyrir hvert stig sem landsliðin ná í undankeppnum stórmóta. Samkvæmt frétt Vísis í gær munu bónusgreiðslur nú nema 100.000 krónum fyrir hvert jafntefli, og þrefalt hærri upphæð eða 300.000 krónum fyrir sigur, og Morgunblaðið hefur fengið það staðfest.

Í síðustu undankeppni kvennalandsliðsins, fyrir EM 2017, fengu leikmenn í fyrsta sinn sérstakar bónusgreiðslur fyrir hvert jafntefli og hvern sigur. Mikil ánægja var með þá niðurstöðu, þó að greiðslurnar væru ekki þær sömu og hjá karlalandsliðinu. Í þessari undankeppni skipti leikmannahópurinn í hverjum leik með sér um 1,7 milljónum króna fyrir hvern sigur, jafnt hvort sem leikmaður tók þátt í leiknum eða sat á varamannabekknum, og fékk hver leikmaður því rúmlega 90.000 krónur fyrir sigur. Hækkunin er því rúmlega þreföld eftir ákvörðun KSÍ. Helmingi lægri upphæð fékkst fyrir hvert jafntefli í síðustu undankeppni, eða um 45.000 krónur.

Nánar er fjallað um bónusgreiðslurnar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert