Kolbein dreymir um að fara á HM

Kolbeinn Sigþórsson lék síðast með landsliðinu á EM í Frakklandi …
Kolbeinn Sigþórsson lék síðast með landsliðinu á EM í Frakklandi þar sem hann skoraði gegn Englendingum og Frökkum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Vonir standa til að framherjinn Kolbeinn Sigþórsson geti snúið aftur út á knattspyrnuvöllinn sem allra fyrst, en hann er við endurhæfingu í Katar.

„Ég hef verið meiddur í næstum eitt og hálft ár en er hér til þess að ljúka endurhæfingu og reyna að komast aftur inn á völlinn,“ segir Kolbeinn í stuttu viðtali við vef íþróttalækningastöðvarinnar Aspetar í Katar, sem sér um endurhæfingu hans.

Kolbeinn er samningsbundinn franska félaginu Nantes en hef­ur verið frá keppni síðan í ág­úst 2016 og hef­ur tvisvar farið aðgerð vegna hné­meiðsl­anna sem halda hon­um frá vell­in­um. Hann vonast til að snúa aftur í næsta mánuði og stefnir hátt með íslenska landsliðinu.

„Það er draumur minn að spila á heimsmeistaramóti, eins og hjá öllum fótboltamönnum, og ég er hér í endurhæfingu til þess að reyna að láta það rætast. Vonandi get ég farið á HM, þótt það sé enn langt í land. Ég er samt jákvæður að ég sé að taka skref í rétta átt,“ sagði Kolbeinn og er annars nokkuð bjartsýnn fyrir Íslands hönd í aðdraganda HM í Rússlandi næsta sumar

„Íslenska landsliðið stefnir alltaf hátt og við förum í alla leiki til þess að vinna, eins og leikir síðustu ára hafa sýnt þar sem við höfum unnið mörg stórlið. Við ætlum okkur eins langt og við getum,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson en allt viðtalið má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert