„Tilfinningin er mjög góð“

Davíð Snorri Jónasson.
Davíð Snorri Jónasson. mbl.is/Golli

Davíð Snorri Jónasson, sem látið hefur af störfum sem aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu, hefur verið ráðinn þjálfari U17 ára landsliðs karla.

Þetta kemur fram á vef KSÍ og er samningur Davíðs Snorra til tveggja ára. Davíð mun jafnframt sjá um þjálfun U16 karla og verður aðstoðarþjálfari U19 karla og hefur hann þegar hafið störf.

„Tilfinningin er mjög góð. Þetta er spennandi verkefni í krefjandi umhverfi sem ég hlakka til að takast á við,“ segir Davíð Snorri í viðtali á vef KSÍ en hann er spenntur að taka þátt í frekari uppbyggingu íslenskrar knattspyrnu. 

„Uppbyggingin hefur verið mikil og við vekjum athygli alls staðar. Það er mikil vinna að baki og ég er tilbúinn að leggja mitt af mörkum til að halda því góða starfi sem hefur verið unnið í landsliðunum.“ 

Davíð Snorri hefur verið aðstoðarþjálfari hjá Stjörnunni undanfarin tvö ár en þar á undan var hann aðstoðarþjálfari karlaliðs Leiknis í Breiðholti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert