Landsliðsmenn fá hjálp við að sofa

Andri Rúnar Bjarnason á landsliðsæfingu í dag en hann er …
Andri Rúnar Bjarnason á landsliðsæfingu í dag en hann er einn af nýliðunum sem eru í hópnum. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Indónesíu í vináttuleik ytra á morgun, en mikill hiti og raki hefur gert landsliðsmönnunum nokkuð erfitt fyrir í undirbúningi fyrir leikinn.

„Þetta hefur verið mjög forvitnilegt og allt öðruvísi en við erum vanir. Þetta var langt ferðalag og hér er heitt og rakt svo þetta er ný reynsla fyrir okkur. Ég hef aldrei upplifað Indónesíu áður og þetta er mjög skemmtilegt,“ sagði Ólafur Ingi Skúlason.

Heimir Hallgrímsson er ánægður með ferðina hingað til, en það hefur reynst mönnum nokkuð erfitt að venjast aðstæðum í Indónesíu.

„Þetta hafa verið fínar æfingar, það eru allir með og enginn meiddur. Það hafa allir náð að sofa með hjálp læknisins, en það er erfitt þegar er svona mikill tímamismunur, þá er oft erfitt að sofa á nóttunni. Það eru margir með okkur í fyrsta skipti og það er mikið sem við ætlum að kenna á stuttum tíma. Ég vona bara að þetta skili sér,“ sagði Heimir meðal annars.

Nánar er rætt við þá Ólaf Inga og Heimi í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert