Draumi líkast að skora í fyrsta landsleik

Andri Rúnar Bjarnason á landsliðsæfingu í Indónesíu en hann er …
Andri Rúnar Bjarnason á landsliðsæfingu í Indónesíu en hann er einn af nýliðunum sem eru í hópnum. Ljósmynd/KSÍ

Andri Rúnar Bjarnason lék sinn fyrsta leik fyrir íslenska landsliðið í knattspyrnu þegar Ísland vann 6:0-sigur á Indónesíu í dag. Hann gleymir leiknum sennilega seint, en hann var í byrjunarliðinu, klúðraði víti og skoraði síðar sitt fyrsta landsliðsmark.

„ Ég var með léttan fiðring og mjög spenntur, en þetta var bara geðveik tilfinning [að vera í byrjunarliðinu],“ sagði Andri Rúnar við Óskar Örn Guðbrandsson hjá KSÍ eftir leik. En hvernig var að skora í fyrsta leik?

„Það var draumi líkast og líka mikill léttir eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu, að hafa náð að koma til baka og skorað,“ sagði Andri og tók undir að ekki hafi verið gaman að klúðra víti.

„Nei, það var það ekki. Þetta var ekkert lélegasta víti sem ég hef tekið, þetta var ágætlega varið hjá honum og hann má eiga það. En það er aldrei gaman að klúðra víti.“

Aðstæðurnar í leiknum voru ansi skrautlegar þar sem gríðarleg rigning setti sinn svip á leikinn og völlinn sérstaklega.

„Maður er vanur Mýrarboltanum á Ísafirði, en þetta var mjög sérstakt. Það voru pollar úti um allt og erfiðar aðstæður, en við gerum virkilega vel í seinni hálfleik og skorum fimm mörk. Það er virkilega vel gert í þessum aðstæðum,“ sagði Andri Rúnar.

Hann er sem kunnugt er í sínu fyrsta landsliðsverkefni og er mjög ánægður með það hvernig hópurinn er saman.

„Það er léttir að geta komið inn í svona góðan hóp og falla svona fljótt inn. Það er ótrúlega skemmtilegt og mikill heiður að fá að vera hérna með þeim,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert