Gott hugarfar stendur upp úr

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari.
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Golli

„Maður getur ekki verið fúll yfir því að vinna landsleik, 6:0, og þetta er leikur sem fer í reynslubankann hjá mér og strákunum,“ sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is eftir stórsigur gegn úrvalsliði Indónesíu í vináttuleik sem fram fór við afar erfiðar aðstæður í Yogyakarta í dag.

„Það kom sterklega til greina að flauta leikinn af. Þeim fannst við vera að renna okkur of mikið í bleytunni og reyna þannig að meiða leikmenn. Við ræddum saman og úr varð að leikurinn var kláraður og ég hrósaði dómaranum og þjálfara Indónesíu mikið fyrir það. Það hefði verið sárt fyrir strákana að fara alla þessa leið ef leikurinn hefði verið flautaður af og ég tala nú ekki um fyrir alla þessa leikmenn sem skoruðu sín fyrstu mörk með landsliðinu og fá þá ekki skráð á sig leik né mörk,“ sagði Heimir en eftir að fór að rigna allsvakalega þegar leið á fyrri hálfleikinn varð völlurinn nánast á floti með pollum út um allan völl.

„Það sem stendur upp úr er gott hugarfar strákanna í þessum leik sem spilaður var við hrikalega erfiðar aðstæður. Að hafa náð að skora öll þessi mörk við þessar aðstæður var virkilega gott og sýndi góðan karakter leikmanna. Það var ekki hægt að spila fótbolta í seinni hálfleik og þetta gekk út á það að koma boltanum inn í teiginn. Að hafa þó náð að gera það sem við gerðum í þessum aðstæðum var mjög gott. Menn voru ekkert að hengja haus og héldu áfram. Auðvitað voru þetta ekki boðlegar aðstæður og við erum ekkert að fela okkur á bak við það að þetta var ekki sterkur andstæðingur sem við mættum,“ sagði Heimir.

Albert Guðmundsson náði ekki að skora en hann kom að …
Albert Guðmundsson náði ekki að skora en hann kom að fjórum mörkum Íslands í leiknum í dag og fékk vítaspyrnu. mbl.is/Golli

Ósanngjarnt að dæma leikmenn út frá þessum leik

Áttir þú ekki von á sterkari andstæðingum en raun bar vitni?

„Jú ég átti von á sterkara liði. Þeirra styrkleiki er einstaklingshæfileikar, hraði og tækni og það var ekki hægt að sýna þessa hluti eins og völlurinn var. Við erum stærri og sterkari í loftinu og við gátum nýtt það í þessum aðstæðum. Ég er hundrað prósent viss um það að leikurinn á sunnudaginn verður allt öðruvísi og þá gegn mun sterkara liði en við lékum á móti í dag. Þá mætum við sterkara og samhæfðara liði,“ sagði Heimir.

Eru einhverjir leikmenn sem banka fastar á landsliðsdyrnar eftir þennan leik?

„Nei það væri bara ósanngjarnt að dæma leikmenn jákvætt eða neikvætt út frá þessum leik. Bæði gaf andstæðingurinn ekki tilefni til þess sem og aðstæðurnar. Við erum búnir að vera virkilega ánægðir með strákana í aðdraganda þessa leiks. Menn hafa komið mjög vel inn í hópinn og hafa gert góða hluti á æfingum. Vonandi getum við sýnt hvað þeir hafa lært í leiknum á sunnudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert