Markaregn í pollunum í Yogyakarta

Samúel Kári Friðjónsson í baráttu við leikmenn Indónesíu.
Samúel Kári Friðjónsson í baráttu við leikmenn Indónesíu. Ljósmynd/knattspyrnusamband Indónesíu

Ísland burstaði Indónesíu, 6:0, í fyrri vináttulandsleik þjóðanna í knattspyrnu sem leikinn var við afar erfiðar aðstæður í Yogyakarta í Indónesíu  í dag.

Ísland fékk vítaspyrnu á 12. mínútu þegar brotið var á Albert Guðmundssyni. Andri Rúnar Bjarnason í sínum fyrsta landsleik steig á punktinn en markvörður Indónesíu varði spyrnu hans. Andri Rúnar bætti fyrir vítaklúðrið stundarfjórðungi síðar þegar hann skoraði með laglegri hjólhestaspyrnu.

Staðan var 1:0 í hálfleik en undir lok hálfleiksins fór að rigna allhressilega og þegar liðin komu út á völlinn í seinni hálfleik var völlurinn gjörsamlega á floti. Þegar þrumur og eldingar gerðu síðan vart við sig ákvað japanski dómarinn að kalla liðin af velli á 55. mínútu. Eftir smá rekistefnu var leiknum síðan haldið áfram nokkrum mínútum síðar en vallaraðstæður voru mjög erfiðar þar sem pollar voru út um allt á vellinum.

Og þá hófst markaregn íslenska liðsins. Það bætti við fimm mörkum sem Kristján Flóki Finnbogason, Óttar Magnús Karlsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Hjörtur Hermannsson skoruðu en allir markaskorar Íslands í leiknum skoruðu sín fyrstu landsliðsmörk og þeir Andri Rúnar, Mikael Anderson, Samúel Kári Friðjónsson, Hilmar Árni Halldórsson, Felix Örn Friðriksson og markvörðurinn Anton Ari Einarsson léku sinn fyrsta landsleik.

Albert Guðmundsson kom að fjórum mörkum Íslands í leiknum og hann fékk að auki vítaspyrnuna en heilt yfir var Albert besti leikmaður íslenska liðsins í leik sem erfitt er að taka alvarlega, bæði vegna aðstæðna og hversu slakur mótherjinn var.

Þjóðirnar mætast aftur í Jakarta á sunnudaginn en þá teflir Indónesía fram landsliðinu sem sem var valið af spænska landsliðsþjálf­ar­an­um Luis Milla, fyrr­ver­andi leik­manni Real Madrid og Barcelona.

Indónesía 0:6 Ísland opna loka
90. mín. Tveimur mínútum er bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert