Albert sýndi hvað hann er hættulegur

Albert Guðmundsson í þann mund að skora fyrsta mark sitt …
Albert Guðmundsson í þann mund að skora fyrsta mark sitt af þremur gegn Indónesíu í dag. AFP

„Tveir sigrar í þessu verkefni og við nýttum dagana með strákunum mjög vel. Það er alltaf jákvætt að klára á þessum nótum,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir að Ísland vann 4:1-sigur á Indónesíu í Jakarta í síðari vináttulandsleik þjóðanna í dag.

Albert Guðmundsson var sannarlega senuþjófurinn í leiknum, en hann kom af bekknum um miðjan fyrri hálfleik og skoraði þrennu auk þess að koma að fjórða markinu.

„Hann er hættulegur í þessari stöðu. Hann var mun aftar í leiknum þar á undan en þegar hann kemur sér í þessi færi er hann gríðarlega hættulegur og sýndi það. Það er mjög jákvætt,“ sagði Helgi, en Ísland vann 6:0-sigur gegn svokölluðu úrvalsliði Indónesíu á fimmtudag. Það er því frekar hægt að dæma menn af frammistöðunni í þessum leik.

„Það var ekki eins góð mótstaða í fyrri leiknum og bjuggumst við en þessi leikur var allt öðruvísi. Við vildum líka sjá frá strákunum það sem við viljum; hvernig þeir haga sér í leikjum og slíkt sem var einna mikilvægast í þessari ferð. Það kemur vel í ljós í svona leik,“ sagði Helgi.

Munum fylgjast með öllum fram að HM

Ekki var um alþjóðlega leikdaga að ræða og því var íslenska landsliðið skipað að stórum hluta ungum leikmönnum í þessum leikjum. Það vöktu þó margir athygli og ekki síst Albert, en er hægt að meta það hvort einhverjir hafi gert frekara tilkall til þess að vera í HM-hópnum næsta sumar?

„Það er alltaf eitthvað jákvætt sem kemur úr þessu og sérstaklega fyrir strákana að vita hvað við viljum. Þeir geta þá farið að vinna í sínum málum. Þeir gátu nýtt tímann hér með fitness-þjálfaranum og verið í sambandi við hann. Strákarnir vita því hvað við viljum og við munum að sjálfsögðu fylgjast með öllum fram á sumar. Það getur allt gerst í fótboltanum,“ sagði Helgi.

Hann sagði það ekki síður mikilvægt að geta kynnt yngri leikmönnum hugmyndafræði A-landsliðsins.

„Þetta er afar mikilvægt, ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir U21-árs landsliðið. Að strákarnir fái þessa reynslu; spila á svona stórum velli með marga áhorfendur og læti er reynsla sem nýtist ekki bara okkur heldur líka U21. Þeir vita nú líka hvað við erum að horfa á og geta unnið með það hjá sínum félagsliðum í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt líka að gera.“

Helgi Kolviðsson í viðtali við fjölmiðla í Indónesíu.
Helgi Kolviðsson í viðtali við fjölmiðla í Indónesíu. Ljósmynd/KSÍ

Siggi dúlla stjórnaði víkingaklappinu

Það var mikil stemning á vellinum í Jakarta í dag, en eftir leik kom íslenski hópurinn saman á vellinum og tók víkingaklappið fyrir áhorfendur. Sigurður Sveinn Þórðarson, oft kallaður Siggi dúlla, stjórnaði klappinu þar sem hann sló á stærðarinnar trommu.

„Hann bað um að fá að taka trommuna,“ sagði Helgi og hló. „Eftir fyrri leikinn vorum við spurðir af hverju við tókum ekki víkingaklappið, sem er eiginlega okkar vörumerki hérna hjá þeim svo við ákváðum að gera það eftir þennan leik. Það var tekið mjög vel á móti okkur, allir jákvæðir og tilbúnir að gera allt fyrir okkur. Það var yndislegt að geta gefið aðeins til baka,“ sagði Helgi.

Gríðarlegur áhugi var á íslenska liðinu í þessari ferð og voru fjölmiðlar í Indónesíu áberandi í kringum íslenska liðið. Það endurspeglaði áhuga almennings.

„Það eru ekki nema 260 milljónir sem búa hérna, svo það þarf ekki nema smá prósentu af þjóðinni að hafa áhuga og þá eru það orðnir helvíti margir. En í alla staði var þetta frábært,“ sagði Helgi Kolviðsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert