Grétar er hættur í Þrótti

Grétar Sigfinnur Sigurðarson, til hægri, í leik með Þrótti gegn …
Grétar Sigfinnur Sigurðarson, til hægri, í leik með Þrótti gegn Keflavík á síðasta ári. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Knattspyrnumaðurinn reyndi Grétar Sigfinnur Sigurðarson er hættur að leika með Þrótti í Reykjavík en hann spilaði með liðinu í 1. deild karla, Inkasso-deildinni, á síðasta tímabili.

Grétar staðfesti við mbl.is að hann væri hættur í Þrótti en hins vegar ekki endilega í fótbolta. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið að sinni.

Grétar, sem er 35 ára gamall varnarmaður, kom til Þróttar fyrir síðasta tímabil eftir að hafa leikið samfleytt 13 tímabil í efstu deild, með Víkingi R., Val, KR og síðast með Stjörnunni tímabilið 2016. Hann hóf meistaraflokksferilinn með KR árið 1999 en lék fyrstu deildaleikina með Sindra á Hornafirði árið 2000 í 1. deild. Hann lék aftur með Sindra 2002, í láni frá KR, en fór síðan í Víking R. 2003 og var þar eitt tímabil í 1. deildinni en síðan í úrvalsdeild eftir það.

Grétar varð fjórum sinnum bikarmeistari og tvisvar Íslandsmeistari með KR-ingum á árunum 2008 til 2015 en hann varð áður bikarmeistari með Val árið 2005.

Hann er í hópi reyndustu knattspyrnumanna landsins og hefur spilað 305 deildaleiki með liðum sínum, þar af 244 í efstu deild, og Grétar er ellefti leikjahæsti leikmaður sögunnar í deildinni. Hann var fyrirliði Þróttara á síðasta tímabili en liðið endaði í 3. sæti og var fjórum stigum frá því að vinna sér sæti í úrvalsdeild.

Grétar lék með Þrótti gegn Víkingi í Reykjavíkurmótinu um síðustu helgi og var fyrirliði liðsins en það hefur að líkindum verið hans síðasti leikur fyrir félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert