KA skoraði tólf gegn Tindastóli

Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði fimm mörk í dag.
Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði fimm mörk í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

KA-menn voru í stuði gegn Tindastóli er liðin mættust í Boganum á Kjarnafæðismótinu í fótbolta í kvöld. Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði fimm mörk í 12:0-sigri. Sæþór Olgeirsson gerði tvö og þeir Steinþór Freyr Þorsteinsson, Hrannar Björn Steingrímsson, Bjarni Aðalsteinsson, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Áki Sölvason skoruðu sitt markið hver. KA hefur unnið alla þrjá leiki sína á mótinu til þessa en Tindastóll tapað sínum þremur.

Kristófer Orri Pétursson skoraði fimm mörk fyrir Gróttu sem fór illa með Víking frá Ólafsvík á Nesinu, 6:0, í B-deild Fótbolta.net-mótsins. Sölvi Björnsson kom Gróttu í 1:0 úr víti á 17. mínútu áður en markaveisla Kristófers tók við. Grótta hefur unnið einn leik og gert eitt jafntefli á mótinu til þessa en Víkingur tapað báðum leikjum sínum. 

Margrét Björg Ástvaldsdóttir skoraði þrennu fyrir Fylki sem vann öruggan 4:1-sigur á Reykjavíkurmóti kvenna. Hulda Sigurðardóttir skoraði einnig fyrir Fylki, en Rósa Pálsdóttir gerði mark Fjölnis. KR hafði svo betur gegn ÍR, 3:0, á sama móti. Þórunn Helga Jónsdóttir, Betsy Hassett og Katrín Ómarsdóttir skoruðu mörkin. Báðir leikirnir voru í A-riðli þar sem KR trónir á toppnum með tvo sigra í tveimur leikjum. Fylkir kemur þar á eftir með fjögur stig, ÍR eitt og Fjölnir án stiga. 

mbl.is