Ég er afar stoltur af þeim

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari.
Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, kvaðst ánægður með margt í vináttulandsleiknum gegn Noregi á La Manga í kvöld en íslenska liðið tapaði þar 1:2 eftir að hafa komist yfir á upphafsmínútum leiksins.

„Við vorum með mikið breytt lið og með marga nýliða gegn mjög sterku liði Noregs, og í hreinskilni sagt vissi ég ekki fyrirfram hvað ég myndi fá frá okkar liði. Tilfinningin fyrir leik var að það gæti farið á alla vegu. En frammistaðan var góð, leikurinn var lengi jafn og miðað við árstíma og allar forsendur var þetta gott," sagði Freyr við mbl.is í kvöld.

Hann var með liðið í nokkra daga við æfingar á Spáni fyrir leikinn. „Ég fékk mikið af upplýsingum í dag og síðustu daga og þetta var hörkuhópur sem við vorum með hérna. Nýliðarnir í hópnum voru fimm og aðrar höfðu verið utan hóps í einhvern tíma og allar þurftu þær að aðlagast. Þær reyndust vera mjög fljótar að læra og sýndu gott hugarfar þannig að ég er afar stoltur af þeim. Hérna voru margir af framtíðarleikmönnum Íslands og nú er það í þeirra höndum að nýta tækifærið og tímann til að þroskast enn frekar," sagði Freyr.

Mjög ungt lið síðustu 20 mínúturnar

Allir fimm nýliðarnir tóku þátt í leiknum á meðan reyndari leikmenn sátu á bekknum.

„Já, við vorum með mjög ungt lið inni á vellinum síðustu 20 mínúturnar en gerðum samt margt gott og áttum fínan kafla. En fyrri hálfleikurinn var betri af okkar hálfu. Við pressuðum þær vel fyrstu 30 mínúturnar, skoruðum mark og fengum góð marktækifæri, og stúlkurnar voru beinskeyttar og áræðnar. En norska liðið er geysilega gott og reynt og leysti vel úr þessu þegar leið á leikinn.

Margar af okkar reyndari leikmönnum sátu allan tímann á bekknum en þær sýndu yngri leikmönnunum mikinn stuðning og hugarfarið var mjög jákvætt. Það er breitt aldursbil í þessum hópi og það var skemmtilegt að sjá hversu góðan hóp þær mynduðu saman.“

Freyr fer með liðið til Algarve í byrjun mars þar sem það spilar fjóra hörkuleiki en síðan bíða leikir í undankeppni HM gegn Slóveníu og Færeyjum í apríl.

„Ég sagði þegar þessi hópur var tilkynntur að það yrði erfitt fyrir okkur að ná fram sigrum í leikjunum í janúar og mars. Ég er fyrst og fremst að horfa til framtíðar, gefa ungum leikmönnum tækifæri, traust og mínútur. En við þurfum að sjálfsögðu að horfa um leið til HM-leikjanna tveggja í apríl. Þá þurfa allir að vera klárir til að ná í réttu úrslitin, við þurfum alltaf að vera með augun á lykilmarkmiðinu,“ sagði Freyr Alexandersson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert