„Gaman að UEFA horfi til Vestmannaeyja“

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Golli

„Við erum hrikalega stolt af því að vera í hópi 12 bestu liða í Evrópu og það sýnir svart á hvítu hvernig staðan á okkur er,“ sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, við mbl.is eftir að dregið var í nýja Þjóðadeild evrópska knattspyrnusambandsins. Ísland er í A-deild, þeirri efstu af fjórum, og er í riðli með Belgíu og Sviss.

„Við vissum að við myndum fá góða andstæðinga, þó þetta séu kannski ekki stærstu nöfnin sem við hefðum getað fengið. Eigum við að segja ekki mest „sexý“ en eru rosalega góðar knattspyrnuþjóðir, þó Belgar séu kannski með fleiri heimsklassa leikmenn en Svisslendingar. Bæði eru rosalega stöðug lið og hafa verið að vinna um 90% af öllum sínum leikjum og verða ótrúlega erfiðir andstæðingar,“ sagði Heimir.

Hann segir hugarfarið hjá íslenska liðinu verða það sama fyrir þessa keppni og fyrir allar aðrar:

„Við förum með það í huga að ætla okkur að vinna þennan riðil. Svo sjáum við bara til hvað gerist í þessu. Við höfum sýnt það í gegnum tíðina að við spilum oft bara betur á móti betri þjóðunum, svo ég held að þetta sé góður möguleiki fyrir okkur að halda áfram að taka framförum. Við vitum að svona lið hjálpa liðum eins og okkur að halda áfram að bæta okkur. Þau munu opna á okkar veikleika og við munum þá geta haldið áfram að laga þá,“ sagði Heimir.

Portúgalinn Deco dró Ísland upp úr skálinni.
Portúgalinn Deco dró Ísland upp úr skálinni. AFP

Allir ofboðslega ánægðir með fyrirkomulagið

Um nýja keppni er að ræða hjá UEFA sem kemur að mestum hluta í stað venjulegra vináttulandsleikja. Þjóðadeild­in er auk þess eins kon­ar „vara­leið“ í loka­keppni EM 2020. Hefðbund­in undan­keppni verður fyr­ir EM, þar sem 20 lið kom­ast áfram úr 10 riðlum. Þá verða fjög­ur sæti eft­ir, eitt fyr­ir hverja deild Þjóðadeild­ar­inn­ar. 

„Það er alveg sama við hvern ég hef talað, hvort sem það eru þjálfarar stærri eða minni þjóðanna; það eru allir ofboðslega ánægðir með þetta. Vináttuleikir sem sérstaklega minni þjóðirnar eiga í erfiðleikum með að næla í eru úr sögunni og í staðinn færðu jafningjaleiki,“ sagði Heimir og kom með skemmtilega samlíkingu úr yngri flokkunum hér á landi:

„Það er gaman að sjá að UEFA horfi til Vestmannaeyja; þetta er svona risastórt Orku-mót. Þú færð að spila við jafningja og það er það sem er gaman. Minni þjóðirnar eiga möguleika á að komast í lokakeppni EM og ég held að þetta sé bara gott fyrir alla.“

Íslenska landsliðið á góðri stundu.
Íslenska landsliðið á góðri stundu. mbl.is/Golli

Gerum okkur ekki grein fyrir því hversu stórt þetta er

Sem áður segir kemur Þjóðadeildin í stað vináttulandsleikja, sem gerir það þó að verkum að minna svigrúm er til þess að prófa nýja leikmenn þar sem nánast allir leikir eru stórleikir. Hins vegar kemur það Íslandi afar vel að vera í A-deild, þar sem eru fjórir þriggja liða riðlar.

„Það þýðir að við höfum tvo möguleika á vináttuleikjum á meðan keppninni stendur. Það er kosturinn við þessa þriggja liða riðla og gefur okkur ennþá kost á að gera tilraunir. En þetta gerir það að verkum að það verða fleiri stærri og alvöru leikir þar sem stærðargráðan verður miklu meiri en vináttuleikir. Maður sér að UEFA er að setja kraft í þessa keppni og að aðrar álfur eru að fara út á þessar brautir,“ sagði Heimir

Hann ítrekaði hversu góður árangur það er hjá Íslandi að byrja í A-deild. Íslend­ing­ar komust þar inn sem 10. sterk­asta þjóðin sam­kvæmt styrk­leikalista UEFA, sem byggði á ár­angri í und­an- og loka­keppni HM 2014 (20%), und­an- og loka­keppni EM 2016 (40%) og undan­keppni HM 2018 (40%).

„Ég held að við gerum okkur ekki grein fyrir því hversu stór þessi keppni er og það verður gaman þegar hún fer af stað. Þá gerum við okkur endanlega grein fyrir því að við erum í efstu deild á meðal Evrópuþjóða. Við eigum að vera stolt af því.

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson á góðri stundu.
Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson á góðri stundu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verkefnið er að viðhalda og bæta árangurinn

Heimir var viðstaddur dráttinn ásamt fjölmennu fylgdarliði KSÍ. Nú þegar Ísland er búið að slá í gegn á EM í Frakklandi og er á leið á HM í Rússlandi, er hann þá ekki löngu hættur að fá spurningar um það hvernig sé mögulegt að jafn lítil þjóð og Ísland nái svona langt?

„Núna er stóra spurningin hvenær endar þetta. Það er nú okkar verkefni að reyna að viðhalda og bæta árangurinn. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að hækka okkur á styrkleikalista og gera eitthvað meira, en við hættum ekki að reyna að bæta okkur á öllum sviðum. Það á að vera okkar markmið að vera í kringum þann stað sem við erum og berjast um það að komast alltaf í lokakeppni. Það væri gríðarlega flott fyrir íslenskan fótbolta,“ sagði Heimir Hallgrímsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert