Skagamenn mæta Snæfelli eða ÍH

ÍBV er ríkjandi bikarmeistari, bæði í karla- og kvennaflokki.
ÍBV er ríkjandi bikarmeistari, bæði í karla- og kvennaflokki. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dregið var í fyrstu tvær umferðir karla og kvenna í bikarkeppni KSÍ í fótbolta í dag. Nokkrar áhugaverðar viðureignir gætu átt sér stað og í karlaflokki mætir ÍA, sem féll úr Pepsi-deildinni síðasta sumar, annaðhvort Snæfelli eða ÍH á heimavelli í 2. umferð. Úrvalsdeildarliðin koma inn í keppnina í 3. umferð, 32-liða úrslitin.

Takist Fram að leggja Ármann að velli á heimavelli í 1. umferð tekur við annar heimaleikur gegn Álafoss eða GG í 2. umferð. HK fær Álftanes eða Ísbjörninn í heimsókn í 2. umferð. Víkingur Ó. mætir annaðhvort KFG eða Afríku og Haukar mæta Vestra eða Kóngunum. Hægt er að sjá dráttinn í karlaflokki í heild sinni með því að smella hér.

Í kvennaflokki mætast m.a. ÍA og Keflavík, Þróttur R. fær Fylki í heimsókn og ÍR eða Grótta mætir Tindastóli. Eins og í karlaflokki koma liðin í efstu deild inn í keppnina í 3. umferð eða 16-liða úrslitin. Dráttinn í kvennaflokki má sjá í heild sinni hér.

Bikarkeppni karla hefst fyrr í ár en nokkru sinni fyrr. Fyrsta umferð karla er spiluð 12.-14. apríl, 2. umferðin 19.-22. apríl og 3. umferðin, þar sem lið Pepsi-deildar koma til leiks, er spiluð 30. apríl til 2. maí.

Þá hefur úrslitaleik karla verið seinkað um mánuð frá því sem verið hefur undanfarin ár en hann verður að þessu sinni leikinn laugardaginn 15. september á Laugardalsvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert