Dramatískur sigur Valsmanna

Víkingurinn Alex Freyr Himarsson tekur á rás á eftir boltanum …
Víkingurinn Alex Freyr Himarsson tekur á rás á eftir boltanum í leiknum í dag en þurfti að sætta sig við tap. mbl.is/Eggert

Valur er með fullt hús stiga á toppi 1. riðils í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu eftir dramatískan sigur á Víkingi R. í Egilshöll í dag, 2:1.

Nikolaj Hansen kom Víkingum yfir á 14. mínútu og á 18. mínútu fékk Valsarinn Andri Fannar Stefánsson að líta beint rautt spjald. Einum færri náðu Valsmenn hins vegar að jafna metin á 24. mínútu þegar Tobias Thomsen skoraði.

Allt stefndi í jafntefli, en á 87. mínútu skoraði Thomsen sitt annað mark, nú úr vítaspyrnu, og tryggði Valsmönnum 2:1-sigur. Þeir eru á toppi riðilsins eftir tvo leiki en um fyrsta leik Víkings var að ræða.

Í 2. riðli A-deildar er KA með fullt hús stiga á toppnum eftir 2:1-sigur á ÍR í Boganum í dag. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði fyrra mark KA í fyrri hálfleik og bróðir hans Hrannar Björn Steingrímsson bætti við öðru í síðari hálfleik. Aron Skúli Brynjarsson lagaði stöðuna fyrir ÍR í uppbótartíma.

KA vann Magna í fyrsta leik og hefur sex stig en ÍR er án stiga eftir tap fyrir Breiðablik í fyrsta leik. Blikar eiga leik til góða inni gegn Þrótti.

Markaskorarar fengnir af urslit.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert