Magni hársbreidd frá sigri gegn KR

Magnamenn fagnar marki.
Magnamenn fagnar marki. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Magni frá Grenivík, sem komst upp úr 2. deildinni í knattspyrnu síðasta haust, hélt hreinu og náði í stig gegn KR þegar liðin gerðu markalaust jafntefli í Lengjubikarnum í Boganum nyrðra í dag.

KR-ingar voru raunar stálheppnir að sleppa með stig. Í uppbótartíma leiksins skaut Kristinn Þór Rósbergsson, framherji Magna, í þverslá úr dauðafæri en niðurstaðan var markalaust jafntefli.

Magni hafði tapað fyrir KA í fyrstu umferð, 2:0, og er með eitt stig í riðlinum á meðan KR hefur fjögur eftir 2:1-sigur gegn Þrótti R.

Þá vann ÍBV 1:0-sigur á Fram, en Ágúst Leó Björnsson skoraði sigurmark ÍBV snemma í síðari hálfleik. Um fyrsta leik Eyjamanna í riðlinum var að ræða en Fram hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum eftir tap fyrir ÍA í fyrstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert