Arna Sif aftur til Þórs/KA

Arna Sif Ásgrímsdóttir er flutt aftur heim til Akureyrar.
Arna Sif Ásgrímsdóttir er flutt aftur heim til Akureyrar. mbl.is/Golli

Arna Sif Ásgrímsdóttir, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, hefur ákveðið að snúa aftur í raðir Þórs/KA og mun leika með Íslandsmeisturunum á komandi keppnistímabili.

Arna Sif og Berglind Björg Þorvaldsdóttir léku með Verona á Ítalíu fyrri hluta vetrar en hafa nú loks fengið samningi sínum við félagið rift. Berglind er því komin aftur í Breiðablik, sem lánaði hana til Verona. Þær lýsa dvölinni hjá ítalska félaginu sem hálfgerðri martröð í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í fyrramálið.

Arna Sif lék síðast með Þór/KA árið 2014 en hún er uppalin hjá félaginu og var máttarstólpi í liðinu um árabil, til að mynda árið 2012 þegar það varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

Þessi 25 ára gamla landsliðskona fór frá Þór/KA til Gautaborgar og lék í sænsku úrvalsdeildinni sumarið 2015, en lék svo með Val sumarið 2016 og síðasta sumar, áður en hún gekk í raðir Verona.

Arna Sif á að baki 12 A-landsleiki og lék sitt fyrsta tímabil í efstu deild árið 2007.

mbl.is