Á leiðinni til Rússlands

Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson
Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir um það bil þrjá og hálfan mánuð kemur að þeirri sögulegu stund þegar Ísland leikur sinn fyrsta leik í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í fótbolta og mætir Lionel Messi og félögum í argentínska landsliðinu á Spartak-leikvanginum í Moskvu.

Margir knattspyrnuáhugamenn eru án efa með nokkuð skýra mynd af því hvernig þeir vilja sjá íslenska landsliðinu stillt upp í þessum mikilvægustu leikjum þess í sögunni.

Heimir Hallgrímsson hefur haldið sig við nokkuð stöðugan kjarna leikmanna og eflaust eru þegar 17-18 sæti frátekin, svo framarlega sem viðkomandi leikmenn verða ekki fyrir meiðslum sem koma í veg fyrir þátttöku þeirra á HM.

Barátta um sum sætin í byrjunarliðinu og í 23 manna hópnum er eftir sem áður hörð. Morgunblaðið mun fylgjast grannt með og fara reglulega yfir stöðuna á þeim leikmönnum sem koma til greina í landsliðið. Fyrsta úttektin er í blaðinu í dag en við veljum 11 manna byrjunarlið og 23 manna hóp, sem miðast við stöðu leikmannanna á þessari stundu, og að liðið væri að hefja keppni á HM núna.

Leikmenn sem eru meiddir eða rétt að stíga upp úr meiðslum eru ekki í liðinu. Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason, Kjartan Henry Finnbogason og Arnór Smárason væru allir fjarri góðu gamni ef Ísland ætti að spila stórleik í þessari viku. Birkir Már Sævarsson og Ingvar Jónsson eru á undirbúningstímabili og rétt að komast af stað eftir meiðsli sem þeir urðu fyrir í lokaumferðunum í Svíþjóð og Noregi í nóvember.

Sjá alla umfjöllunina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem ítarlega er farið yfir það sem 36 líklegir landsliðsmenn hafa gert að undanförnu og valið 11 manna byrjunarlið og 23 manna hópur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert