Joksimovic meiddist illa á hné

Milan Joksimovic ásamt Srdjan Tufegdzic, þjálfara KA-manna.
Milan Joksimovic ásamt Srdjan Tufegdzic, þjálfara KA-manna. Ljósmynd/KA

Serbneski knattspyrnumaðurinn Milan Joksimovic, sem kom til KA-manna í síðasta mánuði, meiddist illa á hné í sigurleik KA gegn Breiðabliki, 4:0, í A-deild Lengjubikarsins í knattspyrnu á Akureyri í dag.

Joksimovic varð fyrir meiðslunum á 25. mínútu leiksins og var fluttur á sjúkrahús. Hnéskelin færðist til og með hjálp Hildar Kristínar Sveinsdóttur, sjúkraþjálfara Breiðabliks, tókst að koma henni aftur á sinn stað.

„Hann fór í skoðun á sjúkrahúsinu og þar kom í ljós að liðböndin eru eitthvað sködduð en hann fer í nánari skoðun á morgun. Krossbandið er í lagi en þetta verður myndað á morgun og þá kemur þetta betur í ljós,“ sagði Sævar Pétursson, framkvæmastjóri KA, í samtali við mbl.is í kvöld.

Joksimovic er 27 ára gamall vinstri bakvörður sem kom til KA-manna frá liði frá Gorodeya í Hvíta-Rússlandi. Joksimovic kom til Gorodeya og lék seinni hluta tímabilsins í úrvalsdeildinni í Hvíta-Rússlandi 2017 þar sem hann spilaði 12 leiki. Áður lék hann í fjögur ár í næstefstu deild í Serbíu en hafði áður spilað í úrvalsdeildinni þar í þrjú ár með Indija og Spartak Subotica.

mbl.is