KR semur við norður-írskan varnarmann

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, og Albert Watson.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, og Albert Watson. Ljósmynd/KR

KR gekk í dag frá samningi við norður-írska varnarmanninn Albert Watson. Watson, sem er 32 ára, hefur undanfarin ár leikið með FC Edmonton í Kanada, þar sem hann hefur verið fyrirliði liðsins.

Watson hóf ferilinn hjá Ballymena United í heimalandinu, áður en hann færði sig yfir til Linfield árið 2011. Tveimur árum síðar fór hann til Kanada, þar sem hann lék 128 leiki og skoraði fimm mörk á fjórum árum. 

Hann á leiki með U23 ára landsliði Norður-Íra og er væntanlegur til landsins næstkomandi mánudag. 

mbl.is