Stjarnan mætir Val í undanúrslitum

KA og Stjarnan eru komin í undanúrslit.
KA og Stjarnan eru komin í undanúrslit. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stjarnan og Valur mætast í undanúrslitum Lengjubikars karla í fótbolta. Þetta varð ljóst eftir 2:0-sigur Stjörnunnar á Leikni R. í Kórnum í dag. Með sigrinum tryggði Stjarnan sér sigur í riðli 3, eftir baráttu við Víking Ó., Keflavík og Fjölni. 

Spánverjinn Gonzalo Zamorano skoraði sigurmark Víkinga í 1:0-sigri á Keflavík í Akraneshöllinni og hafna Víkingar því í 2. sæti. riðilsins með 10 stig, tveimur minna en Stjarnan en Keflvíkingar enda í 4. sæti riðilsins. Fjölnismenn hafna í 3. sæti með átta stig eftir 1:1-jafntefli við Hauka á Ásvöllum. Anton Freyr Ársælsson skoraði mark Fjölnis og Gylfi Steinn Guðmundsson mark Hauka. 

KA er einnig komið í undanúrslit, án þess að spila. Breiðablik gat jafnað KA á stigum með sigri á KR, en sá leikur endaði með 1:1-jafntefli. Arnþór Ari Atlason kom Blikum yfir á 26. mínútu en Óskar Örn Hauksson jafnaði í 1:1 á 47. mínútu og þar við sat, en leikið var í Fífunni. Blikar enda því í 2. sæti með tíu stig og KR í 3. sæti með átta stig. KA leikur við Þrótt R. síðar í dag og með sigri tryggir KA sér fullt hús stiga í riðlinum. 

Grindavík tryggði sæti sitt í undanúrslitum með öruggum 3:0-sigri á Fylki í Reykjaneshöllinni í úrslitaleik um toppsæti riðilsins. Sam Hewson, Björn Berg Bryde og René Joensen skoruðu mörk Grindavíkur, en Jóhann Helgi Hannesson brenndi af vítaspyrnu fyrir Grindavík undir lok fyrri hálfleiks. Í sama riðli hafði HK betur gegn Selfossi, á Selfossi, 3:1. 

Undanúrslitin verða leikin á laugardaginn eftir viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert