„Ungmennastarf Breiðabliks er í hættu“

1.600 iðkendur eru innan knattspyrnudeildar Breiðabliks.
1.600 iðkendur eru innan knattspyrnudeildar Breiðabliks. Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Fullt var út úr dyrum á félagafundi knattspyrnudeildar Breiðabliks sem haldinn var í gærkvöldi, en aðstöðumál félagsins voru þá til umræðu. Núverandi aðstaða er komin yfir þolmörk og ef ekkert verður að gert gæti þurft að takmarka fjölda iðkenda hjá félaginu.

Um er að ræða þá æfingaaðstöðu sem knattspyrnudeild Breiðabliks hefur til umráða yfir vetrartímann. Breiðablik hefur flesta fjölda iðkenda á landinu, en um 1.600 iðkendur eru nú innan knattspyrnudeildar og er reiknað með að sá fjöldi nái tveimur þúsundum á næstu árum. Aðstaðan takmarkast við knattspyrnuhúsið Fífuna, ásamt gervigrasvelli í Fagralundi sem Breiðablik hefur að mestu tekið við af HK. Nú er svo komið að Breiðablik borgar 5-6 milljónir á ári í leigu til annarra félaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir leigu á aðstöðu þeirra til þess að mæta fjölda iðkenda.

Bæjarstjórn Kópavogs lét gera úttekt á æfingasvæði Breiðabliks þar sem niðurstaðan var sú að best væri að ráðast í framkvæmdir í Fagralundi, en gervigrasið á vellinum þar er ónýtt. Knattspyrnudeild Breiðabliks fer aftur á móti fram á að byggður verði nýr gervigrasvöllur vestan við Fífuna áður en ráðist verður í framkvæmdir við Fagralund. 

Var sú tillaga til umræðu á fundinum og var bæjarstjórn gagnrýnd fyrir það að hafa ekki haft forráðamenn Breiðabliks með í ráðum þegar ákveðið var að forgangsraða í þágu Fagralundar. Þar að auki er völlurinn í Fagralundi ekki í löglegri keppnisstærð, kostnaður við að gera hann slíkan og lagfæra væri svipaður og nýr völlur við Fífuna myndi kosta auk þess sem mannvirkjasjóður KSÍ styrkir aðeins nýbyggingar.

Óttast að þjálfarar gefist upp á ástandinu

Áður en opnað var fyrir fjörugar umræður fóru forráðamenn Breiðabliks yfir sína tillögu um nýjan völl vestan Fífu. Hákon Sverrisson, yfirþjálfari yngri flokka félagsins, ræddi um aðstöðuleysið og sagði að langt sé síðan þolmörkum hafi verið náð. Hins vegar sé nú komið að því að þolinmæði þjálfara er á þrotum og ólga farin að myndast varðandi úrræðaleysi.

Hákon benti á hversu gríðarlega umfangsmikið starf knattspyrnudeildar Breiðabliks er og bar það saman við önnur félög. Þar kom meðal annars fram að einungis 4. og 5. flokkur karla hjá Breiðabliki hafi leikið 470 leiki á síðasta ári samkvæmt tölum KSÍ. Á meðan hafi allir flokkar, karla og kvenna, hjá Val leikið 554 leiki og hjá Aftureldingu 446 leiki.

Samhliða auknum fjölda iðkenda hefur Hákon aðeins getað brugðist við með því að troða fleiri og fleiri krökkum inn á sama svæði til æfinga í Fífunni. Vinnuaðstaða þjálfara sé því langt frá því að vera viðunandi, þar sem gríðarlegur hávaði og mjög mikið áreiti fylgdi fjöldanum og væri afar slítandi. Óttast Hákon að þjálfarar félagsins gefist upp á ástandinu og tók það skýrt fram að hann væri kominn með alveg nóg af stöðunni.

Fjölmennt var á fundi knattspyrnudeildar Breiðabliks í gærkvöldi.
Fjölmennt var á fundi knattspyrnudeildar Breiðabliks í gærkvöldi. Ljósmynd/Breiðablik

Bæjarstjóri sakaður um að afvegaleiða fundinn

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, tók fyrstur til máls þegar kom að umræðum. Furðaði hann sig á því að alfarið hafi verið fallið frá eldri umræðu innan Breiðabliks um að ráðast í framkvæmdir á Kópavogsvellinum sjálfum, aðalvelli félagsins, og leggja þar gervigras. Upphitunarkerfi undir grasvellinum þar væri hvort sem er ónýtt og ráðast þyrfti í framkvæmdir, auk þess sem áhorfendastúkan myndi þá nýtast betur.

Orri Hlöðversson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, gagnrýndi bæjarstjóra fyrir að afvegaleiða fundinn og vilja fjalla um aðra tillögu þegar ræða átti hugmynd Breiðabliks um nýjan völl vestan Fífu. Þá gagnrýndi hann þá skýrslu sem bæjarstjórn Kópavogs lét gera og lausnirnar sem kynntar voru.

Var meðal annars stungið upp á því að byrja æfingar yngri flokka klukkan sex á morgnana fyrir skóla og nýta hina svokölluðu jaðartíma betur. Ástæður þess að nýr völlur vestan Fífu myndi nýtast betur heldur en í Fagralundi snúi meðal annars að betri yfirsýn þjálfara, rekstrargrundvelli félagsins og foreldra enda væri hjarta starfseminnar í Smáranum og Fífunni.

Eins og staðan væri í dag ráði aðstaða knattspyrnudeildar Breiðabliks aðeins við um 1.000 iðkendur. Miðað við fjöldaspá væri ungmennastarf Breiðabliks einfaldlega í hættu, eins og Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks, komst að orði.

Að loknum fundi var borin fram ályktun þar sem skorað var á bæjarstjórn Kópavogs að forgangsraða uppbyggingu með nýjum upplýstum gervigrasvelli við Fífuna, sem myndi nýtast mun betur en endurgerður völlur í Fagralundi. Var ályktunin samþykkt með dynjandi lófaklappi.

mbl.is