U17 fer vel af stað í Þýskalandi

Frá æfingu liðsins í Þýskalandi.
Frá æfingu liðsins í Þýskalandi. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 17 ára og yngri hafði betur gegn Írlandi í dag, 2:1. Leikurinn var sá fyrsti í milliriðli EM U17 í Þýskalandi.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, leikmaður Breiðabliks, kom Íslandi yfir úr vítaspyrnu á 22. mínútu eftir að Sveindís Jane Jónsdóttir var felld innan teigs. Emily Whelan jafnaði leikinn snemma í síðari hálfleik en Sveindís, sem leikur með Keflavík, tryggði íslenskan sigur með marki á 69. mínútu eftir undirbúning Karólínu. 

Ísland og Þýskaland eru því bæði með þrjú stig eftir fyrsta leik, en Aserbaídsjan og Írland eru án stiga. Næsti leikur Íslands í riðlinum er gegn Þýskalandi á sunnudaginn kemur. Efsta lið riðilsins fer í átta liða úrslit Evrópumótsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert