Fyrrverandi Íslandsmeistari til Fylkis

Þórhildur Ólafsdóttir.
Þórhildur Ólafsdóttir. Ljósmynd/Fylkir

Knattspyrnukonan Þórhildur Ólafsdóttir er gengin í raðir Fylkis og mun leika með Árbæjarliðinu í 1. deildinni í sumar.

Þórhildur, sem er 28 ára gömul, kemur til Fylkis frá ÍBV en hún lék síðast með Eyjaliðinu í Pepsi-deildinni árið 2015. Hún hefur spilað samtals 132 leiki í meistaraflokki og hefur í þeim skorað 47 mörk en tímabilið 2012 lék hún með Þór/KA og varð Íslandsmeistari með liðinu. Hún á að baki 2 leiki með U-19 ára landsliðinu

„Þórhildur er reyndur leikmaður og við teljum hana passa vel inn í ungt lið okkar. Hún hefur orðið Íslandsmeistari og kemur eflaust með góða strauma inn í lið okkar. Hún hefur verið að kljást við erfið meiðsl undanfarið en er að eflast og nær sér vonandi að fullu fljótlega.

Við erum með ungt og efnilegt lið og reynsla Þórhildar skiptir okkur miklu máli í uppbyggingu liðsins,“ segir Ragna Lóa Stefánsdóttir, varaformaður meistaraflokksráðs kvenna Fylkis, í fréttatilkynningu frá Fylki.

Fylkir féll úr Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð en liðið endaði í næstneðsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert