Þegar efinn nagar

Sverrir Ingi Ingason var nálægt því að skora fyrir Ísland …
Sverrir Ingi Ingason var nálægt því að skora fyrir Ísland en niðurstaðan varð 3:0-tap gegn Mexíkó. AFP

Tæpar 70 þúsund sálir fylgdust með leik Íslands og Mexíkó á föstudag. Við Íslendingar áttum líklega um tvö hundruð slíkar á staðnum, og ekki ein einasta þeirra var sjáanleg þegar ég renndi inn á bílastæðið við Levi's Stadium. Ég var mætt í mexíkóska veislu.

Ég ók löturhægt inn í iðandi grænt, rautt og hvítt mannhafið. Í því sem skarinn fagnaði grænni reyksprengju með gleðihrópum vatt ungur maður með sombrero sér upp að bílnum. „Amiga,“ sagði hann skælbrosandi og bandaði hendi að ljósa taglinu mínu. „Þú ert á röngum stað.“ Ef hann nú bara vissi.

Ég er vissulega blaðamaður, en ég er ekki íþróttablaðamaður. Íþróttablaðamennska er að mörgu leyti sérstakur vöðvi sem þarf að þjálfa af ástríðu. Þegar ég var beðin að hnykla minn í kringum þennan leik hóf ég að pumpa í hann með miklu offorsi; las, hlustaði og horfði á allt sem ég fann um liðin. En sama hvað ég innbyrti af upplýsingum þá nagaði það mig alltaf, boðflennu-heilkennið.

Mér varð hugsað til þessa sjálfsefa þar sem ég sat í fjölmiðlastúkunni og horfði á bláklædda landa mína fá á sig fyrsta mark kvöldsins. Í markinu stóð Rúnar Alex Rúnarsson, í frumraun sinni á svo stórum vettvangi, og hafði hingað til varið vel. Nú flaug boltinn hins vegar í netið án þess að hann fengi rönd við reist. Hann átti eftir að fá á sig tvö í viðbót.

Fyrir leikinn sagði Heimir Hallgrímsson að uppi væru ýmsar spurningar um ástand eldri leikmanna en einnig varðandi getu þeirra nýrri. Leikurinn var ákveðin tilraunastarfsemi með uppstillingar og Heimir viðurkenndi eftir á að tilraunir gætu kostað sitt.

„Við erum í þessu til að fá svör og menn fá tækifæri,“ sagði hann við RÚV. „Sumir nýta það vel og aðrir ekki.“

Af orðum þjálfarans má ráða að einhverjir ungir leikmenn hljóti að sitja uppi með efann; hugsa sömu litlu mistökin aftur og aftur – rétt eins og illa orðaðar viðtalsspurningar hringsóla í mínu höfði. Rúnar Alex virðist hins vegar ekki í þeirri stöðu.

„Mér leið mjög vel,“ sagði hann í samtali við Vísi, sem lýsti honum sem hæstánægðum með leikinn. „Eins og ég ætti heima þarna.“

Þessi viðbrögð segja ýmislegt. Þótt tapið skrifist kannski frekar á varnarleikinn en markvörsluna er netið eftir sem áður á ábyrgð Rúnars. Það að fá á sig þrjú mörk en geta þó klappað sér á bakið er stórfurðulegt fyrir mörg okkar utan knattspyrnuheimsins. En það eru að einhverju leyti viðtekin fræði að fótboltamenn þurfi óbilandi sjálfstraust til að standast álagið sem fylgir atvinnumennsku. Þannig máta margir sig eflaust við leikmenn á borð við Zlatan Ibrahimovic, sem tók út heilsíðuauglýsingu í LA Times í vikunni eftir að hafa skrifað undir hjá Galaxy.

„Kæra Los Angeles,“ skrifaði goðið, „verði ykkur að góðu.“

Auðmýkt hefur verið eitt mikilvægasta einkenni íslenska landsliðsins út á við, en við hefðum seint komist á HM ef ekki væri fyrir sjálfstraust leikmanna sem láta orð um „litla Ísland“ sem vind um eyru þjóta. Það sjálfstraust endurspeglast svo í óbilandi trú á strákunum okkar en eins og Heimir sagði fyrir leikinn eru Íslendingar líka raunsæir: „Ef við töpum þá eru þeir bjartsýnir fyrir næsta leik á eftir.“

Kannski er það rétt sem Aron Einar sagði; kannski var þetta skellurinn sem við þurftum. En hvað sem því líður fá Mexíkanar ekki að leggja okkur línurnar. Við erum á hárréttum stað – við þurfum bara að koma okkur betur fyrir.

Stuðningsmenn Mexíkó voru líflegir og skrautlegir á leiknum.
Stuðningsmenn Mexíkó voru líflegir og skrautlegir á leiknum. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert