FH-ingar að landa Viðari Ara

Viðar Ari Jónsson í búningi Brann.
Viðar Ari Jónsson í búningi Brann. Ljósmynd/.brann.no

Knattspyrnumaðurinn Viðar Ari Jónsson mun samkvæmt heimildum mbl.is væntanlega ganga til liðs við FH í dag frá norska úrvalsdeildarliðinu Brann.

Um lánssamning verður að ræða sem gildir til 23. júlí en Brann þarf að skera niður leikmannahóp sinn vegna útlendingakvóta og hefur frest þar til í dag til að skila inn 25 manna leikmannalista. Norska blaðið Bergens Avisen greinir frá því að Viðar Ari sé ekki á þeim lista. Viðar Ari er 24 ára gamall hægri bakvörður sem á 5 leiki með íslenska A-landsliðinu

Viðar Ari fór frá Fjölni til Brann fyrir síðustu leiktíð en byrjaði aðeins átta leiki í norsku úrvalsdeildinni í fyrra og var ekki í leikmannahópnum í 1:1-jafntefli við Strömsgodset í fyrradag.

FH-ingar reikna með því að franski hægri bakvörðurinn Cédric D'Ulivo verði orðinn leikfær í júlí en hann sleit krossband í fyrra og náði aðeins að spila þrjá leiki með Hafnarfjarðarliðinu áður en hann meiddist.

FH-ingar eru að bæta við sig fleiri leikmönnum en Rennico Clarke, miðvörður frá Jamaíka, sem hefur verið til reynslu hjá FH-ingum síðustu vikurnar verður að öllu óbreyttu orðinn leikmaður FH á næstu dögum en FH-ingar eru að klára pappírsvinnu varðandi félagaskipti hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert