Gregg Ryder vill vera áfram á Íslandi

Gregg Ryder vill vera áfram á Íslandi.
Gregg Ryder vill vera áfram á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Englendingurinn Gregg Ryder hætti sem þjálfari karlaliðs Þróttar R. í knattspyrnu á dögunum en ástæðan var sögð vera faglegur ágreiningur.

Ryder, sem þjálfaði Þrótt í fjögur tímabil, vill hins vegar halda áfram þjálfun á Íslandi en hann kom Þrótti upp í efstu deild sumarið 2015 áður en liðið féll strax árið eftir.

„Mér hefur liðið frábærlega á Íslandi og hér hef ég fest rætur. Ég trúi því að ég hafi góða hluti fram að færa. Ég vil halda áfram að þjálfa á Íslandi,“ var meðal þess sem kom fram í yfirlýsingu frá Ryder í dag.

Þróttur endaði í 3. sæti 1. deildarinnar síðasta sumar, fjórum stigum frá Keflavík sem endaði í 2. sæti og fór upp um deild.

Ryder ber engan kala til Þróttar og óskaði nýjum þjálfara liðsins, Gunnlaugi Jónssyni, góðs gengis.

„Ég óska nýjum þjálfara, Gunnlaugi Jónssyni, góðs gengis í sumar. Baráttukveðjur færi ég einnig leikmönnum Þróttar, starfsfólki og stuðningsmönnum. Sjáumst í stúkunni! Lifi Þróttur!“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert