Generalprufa á Hlíðarenda

Sigurður Egill Lárusson og Felix Örn Friðriksson mætast á Hlíðarenda …
Sigurður Egill Lárusson og Felix Örn Friðriksson mætast á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Golli

Íslandsmeistarar Vals taka á móti bikarmeisturum ÍBV á Hlíðarenda í dag klukkan 17 í síðasta opinbera leiknum áður en keppni á Íslandsmótinu hefst eftir rúma viku. Um er að ræða hina svokölluðu meistarakeppni KSÍ, þar sem handhafar tveggja stærstu titlanna á síðasta ári mætast.

Valsmenn hafa unnið meistarakeppnina oftast allra liða, eða 10 sinnum. Keflavík, Fram og FH koma næst með sex sigra. ÍBV hefur unnið keppnina fjórum sinnum.

Valsmenn unnu þáverandi Íslandsmeistara FH 1:0 í meistaraleiknum fyrir ári, með marki Hauks Páls Sigurðssonar. Þeir unnu FH einnig árið 2016. Þá var jafnt, 3:3, eftir venjulegan leiktíma en Valur vann í vítaspyrnukeppni sem gripið var til að 90 mínútum loknum. Valur hefur þegar fagnað einum titli á þessu ári, en liðið varð deildabikarmeistari fyrir 10 dögum með sigri á Grindavík í úrslitaleik. Valur mætir KR á föstudagskvöldið eftir viku í 1. umferð Íslandsmótsins en ÍBV sækir Breiðablik heim daginn eftir. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert