Þór/KA er deildabikarmeistari

Þór/KA fagnar sigrinum með bikarinn í Boganum í kvöld.
Þór/KA fagnar sigrinum með bikarinn í Boganum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Þór/KA varð í kvöld deildabikarmeistari kvenna í knattspyrnu í annað skipti með því að sigra Stjörnuna í vítaspyrnukeppni eftir að fjörugur leikur liðanna í Boganum á Akureyri endaði 2:2.

Stjarnan komst yfir með tveimur mörkum í fyrri hálfleik en bæði voru þau gjafamörk frá markvörðum Þórs/KA. Það voru markadrottningarnar Katrín Ásbjörnsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir sem skoruðu í autt markið eftir mistök hjá markvörðum Þórs/KA. Helena Jónsdóttir markvörður var borin af velli á 6. mínútu en hún sparkaði í jörðina með þeim afleiðingum að hún slasaðist og Katrín skoraði auðveldlega.

Helena Jónsdóttir, markvörður Þórs/KA, þurfti aðstoð þegar hún meiddist á …
Helena Jónsdóttir, markvörður Þórs/KA, þurfti aðstoð þegar hún meiddist á upphafsmínútum leiksins og var flutt á sjúkrahús. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stjarnan gaf svo víti skömmu eftir seinna mark sitt og úr vítinu skoraði Stephany Mayor. Staðan var því 2:1 í hálfleik fyrir Stjörnuna.

Þór/KA byrjaði seinni hálfleikinn af krafti en átti í vandræðum með að skapa sér færi. Hagur Stjörnunnar vænkaðist um miðjan hálfleikinn þegar Bianca Sierra var rekin af velli með rautt spjald eftir að hafa tapað sér við dómara leiksins.

Þór/KA var enn sterkara liðið en Stjarnan átti nokkrar hraðar sóknir sem hefðu vel átt að skila marki. Andrea Mist Pálsdóttir jafnaði leikinn beint úr hornspyrnu þegar kortér var eftir. Á lokasprettinum sóttu Stjörnukonur hart að Þór/KA og skoruðu tvö mörk, sem bæði voru dæmd af sökum rangstöðu.

Leiknum lauk 2:2 og var farið beint í vítaspyrnukeppni. Þar nýtti Þór/KA allar spyrnur sínar en Sara Mjöll Jóhannsdóttir varði tvívegis frá Stjörnukonum. Lára Einarsdóttir tryggði Þór/KA Lengjubikarinn með fjórðu spyrnu Þórs/KA og allt ætlaði um koll að keyra í Boganum.

Þór/KA 6:4 Stjarnan opna loka
90. mín. Andrea Mist Pálsdóttir (Þór/KA) fer af velli +4
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert