„Alltaf planið að fara aftur í Þór/KA“

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir markmaður Þórs/KA.
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir markmaður Þórs/KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Planið var alltaf að vera liðinu innan handar í sumar, það var löngu ákveðið,“ sagði markvörðurinn Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir við mbl.is, en hún fékk í dag félagaskipti aftur til Íslandsmeistara Þórs/KA í knattspyrnu.

Sjá frétt mbl.is: Bryndís Lára komin aftur til Þórs/KA

Bryn­dís gaf það út síðastliðið haust að hún myndi taka sér pásu frá fót­bolta um óákveðinn tíma og sagðist ætla að reyna fyr­ir sér í frjáls­um íþrótt­um, nánar tiltekið í spjótkasti. Hún skipti þó yfir í Val á dögunum og var búin að koma við sögu með liðinu á undirbúningstímabilinu núna í vor.

„Ég skipti yfir í Val um daginn því Sandra [Sigurðardóttir] datt út í einum leik en það var alltaf planið að skipta aftur yfir í Þór/KA,“ sagði Bryndís, en segir það vissulega haft áhrif á það að félagaskiptin voru keyrð í gegn í dag þar sem Helena Jónsdóttir, sem fengin var sem aðalmarkvörður í stað Bryndísar, meiddist í gær og er talið að þau meiðsli séu alvarleg.

„Við áttum bara eftir að ganga frá þessu svo við ákváðum að drífa þetta í gegn núna,“ sagði Bryndís. En hvernig er planið hjá henni í sumar, mun hún vera með Þór/KA í öllum leikjum og þá á hvaða hátt?

„Við erum bara ekki komin svo langt að ákveða það. Það var búið að negla niður að ég yrði með liðinu í sumar, annað hvort í liðsstjórn eða á bekknum ef eitthvað yrði um meiðsli. Það kemur bara í ljós hvernig sumarið þróast.“

Spjótið er ennþá í fyrsta sæti

Bryndís segir það hins vegar enn vera í fyrsta sæti að reyna fyrir sér í spjótkastinu.

„Ég er að einbeita mér númer eitt, tvö og þrjú að því og hef verið á æfingum í spjótinu. Svo sé ég bara hvernig það þróast, ég er bara að koma mér af stað í þessu,“ sagði Bryndís, sem er að æfa á höfuðborgarsvæðinu og verður búsett þar í sumar en tók það fram að samgöngurnar í dag hjálpi til að geta verið nánast hvar sem er.

Óttast er að meiðsli Helenu séu alvarleg, og ef svo fer mun Bryndís þá hlaupa að fullu í skarðið?

„Það er ekki búið að ræða það. Við þurfum fyrst að sjá hvað kemur út úr þessum meiðslum hjá henni og ég reikna með að þetta verði rætt þegar vita er meira um það. Ég er ekki komin langt í þessu ferli,“ sagði Bryndís.

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir og …
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir og Ágústa Kristinsdóttir með Íslandsbikarinn síðastliðið haust. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Næstum búin að stökkva til Spánar

Eins og áður segir ákvað Bryndís strax í haust að taka sér pásu frá fótboltanum, en hvernig hefur veturinn verið án hans?

„Hann er búinn að vera mjög góður og frjálslegur. Ég er búin að njóta mikið, en auðvitað hef ég saknað þess pínu að vera í fótboltanum. Ég hef samt kunnað vel við mig án hans,“ sagði Bryndís, en viðurkenndi að það hafði verið erfiðast þegar liðin fóru að hópast suður á bóginn í sólina í æfingaferðir.

„Jú það var alveg ömurlegt! Ég var næstum búin að kaupa mér miða til Spánar, ég gat alveg sagt það hreint og beint út,“ sagði Bryndís hlæjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert