„Ég skil ekki þá gagnrýni“

Rúnar Kristinsson með framherjanum Björgvini Stefánssyni sem gekk í raðir …
Rúnar Kristinsson með framherjanum Björgvini Stefánssyni sem gekk í raðir KR í vetur.

„Við yrðum aldrei sáttir með að vera fyrir neðan 3. sæti. Ég efast ekki um að KR-liðið sé betra en menn halda,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, en liðinu er spáð 4.-5. sæti í Pepsi-deildinni í knattspyrnu á komandi leiktíð.

Rúnar er tekinn við KR að nýju í vetur eftir að hafa síðast stýrt liðinu á árunum 2010-2014. Á þeim tíma varð liðið tvívegis Íslandsmeistari og þrívegis bikarmeistari.

„Við verðum bara að sjá hvernig mótið spilast núna og hversu góðir við erum í samanburði við hin liðin. Við rennum svolítið blint í sjóinn og ég veit ekki alveg hvar við stöndum. Það hafa orðið einhverjar breytingar, ég er nýr þjálfari og þekki ekki leikmannahópinn eins vel og þegar ég var hér síðast, þannig að þetta er svolítið nýtt fyrir okkur alla,“ segir Rúnar.

Helsta gagnrýnin á lið KR síðustu misseri virðist snúa að því að liðið sé „gamalt“ í samanburði við önnur lið, og að þörf sé á ferskari vindum með yngri leikmönnum:

„Ég skil ekki þá gagnrýni. Knattspyrnumenn eru í dag að spila mun lengur en fyrr á tímum. Við erum með ágætisblöndu. Ég hef líka bent á það áður að íslenska landsliðið er mjög gamalt, en það er að ná árangri og standa sig gríðarlega vel. Aldur er afstætt hugtak,“ segir Rúnar.

KR á erfiða leiki í fyrstu umferðum Íslandsmótsins en liðið sækir Íslandsmeistara Vals heim á föstudagskvöld kl. 20 og fær svo Stjörnuna í heimsókn sunnudaginn 6. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert