Markmannsvandræði hjá Víkingum

Logi Ólafsson þjálfari Víkings.
Logi Ólafsson þjálfari Víkings. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er ljóst hver mun standa á milli stanganna hjá Víkingi á laugardaginn þegar liðið tekur á móti Fylki í 1. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

Róbert Örn Óskarsson, sem varið hefur mark Víkinga undanfarin ár, verður ekkert með liðinu í sumar vegna meiðsla. Senegalinn Serigne Mor Mbaye er ekki kominn með keppnisleyfi og mun væntanlega ekki fá það fyrr en í næstu viku. Þá gerðu Víkingar sér vonir um að fá danska markvörðinn Andreas Larsen til liðs við sig frá Lyngby. Hann var með Víkingum í æfingaferð liðsins í Tyrklandi fyrir skömmu en nú er ljóst að hann gengur ekki í raðir liðsins. Og til að bæta svo gráu ofan á svart eru báðir markverðir 2. flokks félagsins meiddir.

„Lyngby vildi ekki sleppa Larsen og við bíðum enn eftir að fá leikheimild fyrir Senegalann. Það er ljóst að það næst ekki að fá keppnisleyfi fyrir hann fyrir fyrsta leikinn. Markverðir tveir sem eru í öðrum flokki eru báðir meiddir svo það er ekki hægt að segja ástandið sé gott en það mun einhver standa í rammanum.

Við erum á fullu að vinna í þessum málum og við gerum okkur vonir um að landa dönskum markverði sem kemur seint í kvöld eða á morgun. Hann hefur spilað með yngri landsliðum Dana en það er ekki tímabært að nefna nafn hans að svo stöddu,“ sagði Haraldur V. Haraldsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert