„Ógeðslega fúl núna“

Helena Sverrisdóttir á ferðinni með boltann í einvíginu við Val …
Helena Sverrisdóttir á ferðinni með boltann í einvíginu við Val sem komið er í oddaleik. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ógeðslega fúl núna því ég ætlaði mér ekki að spila annan leik,“ sagði Helena Sverrisdóttir eftir að Haukum mistókst að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld. Haukar fá annað tækifæri í oddaleik gegn Val á Ásvöllum á mánudag.

„Við hittum ekki neitt, það réði mestu um þetta tap,“ sagði Helena en spennan var þó mikil á lokamínútunum áður en Valur landaði að lokum 68:66-sigri.

„Við skoruðum 29 stig í fyrri hálfleik og vorum með Þóru og Whitney stigalausar að honum loknum. Einhvern veginn höfðum við ekki svo miklar áhyggjur í hálfleik því við vorum að fá opin sniðskot og fullt af opnum þristum. Í gegnum allan leikinn gerðum við fína hluti og fengum fullt af opnum skotum sem við bara settum ekki niður,“ sagði Helena.

Eins og fyrr segir var lokamínútan æsispennandi og Haukar fengu rúmar 5 sekúndur eftir leikhlé sitt til að jafna metin eða tryggja sér sigur. Liðinu tókst hins vegar ekki að reyna skot:

„Við teiknuðum upp kerfi þar sem ég átti að fá boltann. Ég hélt að ég væri opin en Whitney fann mig ekki alveg svo við bösluðum svolítið við að koma boltanum inn. Svo náðu þær að brjóta á okkur þegar það var enn minni tími eftir. Við vorum búin að ákveða kerfi fyrir þær aðstæður sem við hlupum bara ekki rétt, og það er svolítið svekkjandi. Við verðum að fara yfir þetta um helgina. Það er fúlt að koma boltanum ekki inn og ná svo ekki skoti,“ sagði Helena.

Nú er aðeins oddaleikur eftir sem sker úr um hvort liðið landar sjálfum Íslandsmeistaratitlinum. Sá leikur er á heimavelli Hauka:

„Við erum með rosalega ungt og reynslulítið lið og þeim greinilega líður mikið betur á Ásvöllum. Ég er því ánægð með að við séum að fara þangað en ekki aftur hingað. Við verðum bara að undirbúa okkur vel yfir helgina og skoða hvað það er sem við gerum vitlaust, en mér fannst við samt fá fullt af flottum sóknum og flottum skotum. Við verðum auðvitað að þora að skora,“ sagði Helena.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert